Körfubolti

Skellti Real Madrid og kominn í NBA

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Blatt með afrakstur síðasta vetrar
Blatt með afrakstur síðasta vetrar vísir/afp
NBA körfuboltaliðið Cleveland Cavaliers í Bandaríkjunum hefur ráðið David Blatt sem þjálfara sinn en hann gerði Macabbi Tel Aviv að Evrópumeisturum í vor.

Ráðningin á Blatt kemur mörgum á óvart vegna þess að hann hefur hvorki reynslu af NBA sem þjálfari né leikmaður. Engu að síður er hann reyndur þjálfari sem hefur náð glæstum árangri.

Hann þjálfaði lið Macabbi Tel Aviv sem gerði sér lítið fyrir og skellti Real Madrid óvænt í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor. Í kjölfar sigursins sagði Blatt að hann hefði mikinn áhuga á að þjálfa í NBA.

„Það er enginn vafi í mínum huga að ég ræð við að þjálfa í NBA. Það þarf bara einhver að vilja mig,“ sagði Blatt og Cavaliers vildi hann.

Blatt hefur þrisvar verið valinn þjálfari ársins í Ísrael og einu sinni í Rússlandi en hann hefur að auki þjálfað lið á Ítalíu, Grikklandi og í Tyrklandi.

Blatt gat sér mjög gott orð sem landsliðsþjálfari Rússlands. Rússland gerði hann að Evrópumeisturum 2007 og fjórum árum síðar stýrði hann liðinu til bronsverðlauna. Ári seinna vann Rússland brons á ólympíuleikunum í London undir hans stjórn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×