Körfubolti

Kyrie Irving fær tíu milljarða næstu fimm árin hjá Cleveland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kyrie Irving þarf nú að halda áfram að vinna fyrir kaupinu.
Kyrie Irving þarf nú að halda áfram að vinna fyrir kaupinu. vísir/getty
Kyrie Irving, leikstjórnandi Cleveland Cavaliers, verður brátt einn hæstlaunaði leikmaðurinn í NBA-deildinni í körfubolta en hann hefur komist að samkomulagi við liðið um nýjan samning.

Irving fær 90 milljónir dala næstu fimm árin eða jafnvirði tíu milljarða íslenskra króna. Hann fær því 18 milljónir dala á ári eða tvo milljarða króna og er því kominn í sama launaflokk og LeBron James.

Leikstjórnandinn öflugi, sem valinn var fyrstur í nýliðavalinu 2011, á eitt ár eftir af núgildandi samningi sínum, en hann má ekki skrifa undir nýja samninginn fyrr en 10. júlí þegar leikmannamarkaðurinn opnar.

Með þessu er morgunljóst að Cleveland ætlar að byggja nýtt lið í kringum Irving, eins og fastlega var búist við. Liðið fékk fyrsta valrétt í nýliðavalinu aftur í ár og valdi AndrewWiggins sem talinn er geta orðið stjarna í deildinni. Spennandi tímar framundan hjá Cavaliers.

Kyrie Irving hefur verið frábær síðan hann mætti í deildina fyrir þremur árum. Hann var kjörinn nýliði ársins 2012 og hefur tvívegis verið valinn í stjörnuliðið. Þá var hann kjörinn besti leikmaður stjörnuleiksins á síðustu leiktíð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×