Erlent

Uppreisnarmenn þverneita að hafa skotið vélina niður

Jakob Bjarnar skrifar
Borodai var í viðtali við BBC og hafnar öllum ásökunum sem snúa að MH17.
Borodai var í viðtali við BBC og hafnar öllum ásökunum sem snúa að MH17. ap
Leiðtogi uppreisnarmanna í Úkraínu, sem hliðhollir eru Rússum, segir í viðtali við BBC að hann og hans menn hafi ekki yfir að ráða Buk-eldflaugum, en talið er að skotfæri af þeirri tegundinni hafi grandað flugvél Malasíska flugfélagsins, með flugnúmeri MH17.

Alexander Borodai, forsætisráðherra þess svæðis Úkraínu sem lýst hefur yfir sjálfstæði og er undir yfirráðum uppreisnarmanna, segir að sönnunargögn sem sýni annað séu fölsuð. Borodai vísar ásökunum alfarið á bug. En, eins og komið hefur fram fórust allir sem um borð í vélinni voru, alls 298 manns, þegar upp kom sprenging í henni og hún hrapaði til jarðar í austanverðri Úkraínu í síðustu viku. Uppreisnarmenn hafa af flestum verið taldir bera ábyrgð á því að hafa skotið vélina niður.

Flestir farþega voru hollenskir en fyrstu líkin eru komin til Hollands og var tekið á móti þeim með viðhöfn í gær. Næsta vél með líkum þeirra sem eftir eru er svo væntanleg til Hollands í dag. Uppreisnarmenn hafa verið sakaðir um að umgangast líkin af virðingarleysi, eða að við þau hafi verið átt til að leyna sönnunargögnum, en því vísar Borodai jafnframt á bug í téðu viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×