Lífið

Lið Justins Timberlake hafði samband vegna Bárðarbungu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Timberlake til vinstri, Ísleifur til hægri.
Timberlake til vinstri, Ísleifur til hægri.
Fólk á vegum söngvarans Justin Timberlake hefur verið í sambandi við tónleikahaldara hér á landi vegna ólgunnar í Bárðarbungu.

„Þeir höfðu séð umfjöllun fjölmiðla erlendis og hringdu í okkur í morgun. Þetta var mjög gott samtal. Þeir vildu fá að vita þetta frá fólkinu sem býr hér á Íslandi, hvernig þetta væri í raun og veru,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson tónleikahaldari og heldur áfram:

„Sérfræðingar segja að það sé rosalega ólíklegt að eitthvað gerist sem hafi mikil áhrif á flugsamgöngur. Við höldum áfram að undirbúa tónleikana. Við fylgjumst vel með fréttum en eins og staðan er núna bendir ekkert til þess að við þurfum að hafa áhyggjur. Bárðarbunga er í 400 kílómetra fjarlægð frá Keflavík og vindáttin er þannig að það er ólíklegt að þetta hafi áhrif á flug, eftir því sem við best vitum.“

Fluttir inn í Kórinn

Ísleifur segir að þeir sem komi að tónleikunum séu nánast fluttir inn í Kórinn, þar sem tónleikarnir fara fram á sunnudaginn. Vandað hefur verið til verka þegar það kemur að umgjörð tónleikanna. Til dæmis hafa bílastæðamál verið skipulögð í þaula, segir Ísleifur.

„Það verður ekki erfitt að fá stæði. Við erum með rosalega öflugt kerfi í þeim málum. Við verðum með bílastæði við Kórinn sem við leyfum að fyllast. Til þess að mega leggja í þeim stæðum verða að vera að minnsta kosti fjórir inni í bílnum. Klukkan fjögur tökum við svo við stjórninni á umferð í Kórahverfinu í samstarfi við lögregluna. Við verðum með stæði þarna í grenndinni, til dæmis í Smáralind. Síðan verðum við með stanslausar sætaferðir frá stæðunum að Kórnum. Við hvetjum fólk líka til að ganga eða koma á hjólum. Við verðum með hjólageymslu og munum passa vel upp á hjólin. Íbúar í Kórahverfinu fá svo sérstakan passa til þess að komast leiða sinna um hverfið og við vonumst til þess að tónleikarnir hafi sem minnsta röskun í för með sér fyrir þá.“

Fyrstu gestirnir koma á morgun

Ísleifur getur ekki gefið upp hvenær Justin Timberlake kemur til landsins. Hann segir að umboðsmenn hans óttist ekki að hann festist hér á landi ef færi að gjósa.

„Það sem setur alla á tærnar er gosið í Eyjafjallajökli. Heimurinn fylgist vel með vegna þess að allir muna eftir áhrifunum sem það hafði. Eftir því sem við komumst næst er ólíklegt að þetta verði líkt því gosi. Þannig að enginn óttast neitt.“

Tónleikarnir verða í beinni útsendingu í gegnum vefsíðuna Yahoo. Ísleifur segir að fyrstu gestirnir sem tengist tónleikunum komi á morgun.

„Síðan munu þeir koma hérna á fimmtudag, föstudag og laugardag. Við búumst við mörgum að utan.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×