Innlent

Ábyrgðin hefur verið færð yfir á flugrekendur

visir/anton brink/egill
Ábyrgðin á því að fljúga þar sem hætta getur verið á eldfjallaösku í lofti, verður færð frá flugmálayfirvöldum yfir á flugrekendurna sjálfa samkvæmt nýrri reglugerð Alþjóða flugmálastofnunarinnar, sem tekur gildi í nóvember.

Mörg flugfélög og stofnanir eru að þróa búnað og kerfi til að geta metið hættuna af öskunni, þótt engar sameiginlegar lausnir liggi enn á borðinu.

Viðkomandi flugfélög verða fyrst að fá samþykki Alþjóða flugmálastofnunarinnar áður en þau fá sjálf að taka þessar ákvarðanir, og þurfa aðferðir þeirra hafa verið metnar og samþykktar.

Meðal annars er verið að þróa skynjara til að setja á farþegaþotur, þannig að hægt verði að safna upplýsingum víða að líkt og veðurupplýsingum. Hinsvegar hefur ekki fengist fjármagn til að ljúka rannsóknum á raunverulegum áhrifum eldfjallaösku á þotuhreyfla, sem Rolls Royce er komin vel á veg með.

Veðurstofa Íslands og Háskólinn í Reykjavík tengjast verkefnum á þessum sviðum. Þorgeir Pálsson prófessor við HR segir að skólinn sé aðili að svonefndu VADAS verkefni meðal annars í samstarfi við Airbus Group og ýmis flugfélög og er þar verið að samræma hugmyndir og tækni sem miða að því að vara við ösku. Hann segir verkinu hvergi nærri lokið þar sem enn eigi eftir að samræma marga þætti.

Samkvæmt þessu ætti ámóta vandræðaástand að skapast ef gos brýst út í Bárðarbungu, og ástandið varð þegar gosið varð í Eyjafjallajökli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×