Innlent

Gosið hófst upp úr miðnætti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það eru sömu upplýsingar og við erum að fá,“ segir Rögnvaldur Ólafsson í Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í samtali við Vísi aðspurður hvort gosið hafi minnkað töluvert. Sprungugos er hafið norður af Dyngjujökli, nyrst í Holuhrauni Gosið hófst um miðnætti (u.þ.b. 00:02) m.v. vefmyndavélar og jarðskjálftagögn. Gosið sést ekki á radar og talið er að öskuframleiðsla sé óveruleg að því er kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Talið er að sprungan sé um 100-300 metra löng.

Vísindamenn á svæðinu telja að gosið sé nokkra kílómetra norður af sporði Dyngjujökuls og að hraun renni til suð-austurs og virðist renna hratt. Veikur gosórói sést á jarðskjálftamælum í samræmi við hraungos án verulegrar sprengivirkni. Engin merki sjást um jökulhlaup. Litakóði fyrir Bárðarbungu er rauður.

Á vefmyndavél Mílu er greinilegt að gosið er ekki jafnöflugt og það var á öðrum tímanum í nótt. Rögnvaldur segir að starfsmenn í samhæfingarmiðstöðunni haldi áfram að vinna miðað við þær forsendur að gos sé í gangi. Tveir starfsmenn Veðurstofunnar eru á svæðinu og fylgjast með gangi mála.

Á myndbandinu hér að ofan má sjá fyrsta klukkutíma gossins tekinn saman á 36 sekúndum. Hafa verður í huga að vefmyndavélin er staðsett á Vaðöldu í um tuttugu kílómetra fjarlægð frá gosinu.

Myndina sem fylgir fréttinni tók Þorbjörg Ágústsdóttir, doktorsnemi við University of Cambridge.


Tengdar fréttir

Fundað í samhæfingarmiðstöðinni

Á annan tug manns eru mættir til vinnu í Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð sökum þess að eldgos er hafið í Holuhrauni á milli Dyngjujökuls og Öskju norðan við Vatnajökul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×