Innlent

Aukin skjálftavirkni við Bárðarbungu

Randver Kári Randversson skrifar
Aukin skjálftavirkni hefur verið við Bárðarbungu nú fyrir hádegi.
Aukin skjálftavirkni hefur verið við Bárðarbungu nú fyrir hádegi. Vísir/Ómar Ragnarsson
Skjálftavirkni við Bárðarbungu hefur aukist töluvert nú fyrir hádegi og hefur aukinn órói komið fram á mælum Veðurstofu Íslands. Ekki sjást merki um að kvika sé á leið til yfirborðs.Skjálftarnir eru flestir á 5-10 km dýpi.

Í stöðuskýrslu Veðurstofunnar kemur fram að TF-SIF hafi verið sett í viðbragðsstöðu, sem sé hluti af eðlilegu ferli við þessar aðstæður. Engar marktækar breytingar mælist í vatnsföllum í nágrenninu. Litakóði fyrir flug sé áfram appelsínugulur en verið sé að meta hvort ástæða sé að breyta honum.

Í fréttatilkynningu frá Ríkislögreglustjóra kemur fram að virkni sem hófst aðfararnótt laugardags 16. ágúst hafi haldið áfram óslitið og ekki séu merki um að henni sé að ljúka. Um 25 km langur berggangur hafi myndast undir Dyngjujökli. Gangurinn hefur lítið lengst en kvikuflæði er eftir ganginum og merki eru um að hann sé að greinast í norðaustur endanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×