Körfubolti

Dómarinn sem missti aldrei af leik hættur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dick Bavetta dæmdi langt fram á áttræðisaldur.
Dick Bavetta dæmdi langt fram á áttræðisaldur. Vísir/Getty
Dick Bavetta hefur ákveðið að leggja flautuna á hilluna eftir 39 ára feril sem dómari í NBA-deildinni.

Bavetta, sem verður 75 ára í desember, þreytti frumraun sína í NBA þegar hann dæmdi leik New York Knicks og Boston Celtics í Madison Square Garden 2. desember 1975.

Alls dæmdi Bavetta, sem starfaði sem verðbréfasali á Wall Street áður en hann byrjaði að dæma, 2635 leiki í deildarkeppninni í röð, sem er met. Bavetta missti aldrei af leik sem hann var settur á.

Þá dæmdi Bavetta 270 leiki úrslitakeppni, 27 leiki í lokaúrslitum, þrjá stjörnuleiki, auk þess sem hann dæmdi á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992, fyrstur NBA-dómara.

„Fyrir mína hönd og Bavetta-fjölskyldunnar vil ég þakka NBA-fjölskyldunni og dómarasamtökunum fyrir þann heiður og forréttindi að hafa fengið að dæma í 39 frábær ár,“ sagði Bavetta þegar tilkynnt var um ákvörðun hans að leggja flautuna á hilluna.

„Ég er stoltastur að hafa aldrei misst af leik sem ég var settur á á ferlinum, hvort sem það var í deildar- eða úrslitakeppni. Þetta hefur verið frábær tími.“

Síðasti leikurinn sem Bavetta dæmdi í NBA var á milli Boston og Cleveland Cavaliers 12. apríl síðastliðinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×