Körfubolti

Bandaríkin lentu í vandræðum gegn Tyrklandi á HM | Öll úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rudy Gay.
Rudy Gay.
Bandaríska landsliðið í körfubolta lenti í töluverðum vandræðum gegn Tyrklandi á Heimsmeistaramótinu sem fer fram á Spáni þessa dagana. Tyrkland leiddi eftir tvo leikhluta og hluta þriðja leikhluta áður en bandarísku leikmennirnir settu aftur í gír.

Ljóst er að það var gríðarleg pressa á leikmönnum bandaríska liðsins en liðið hefur ekki tapað í síðustu 55 keppnisleikjum sínum.

Tyrkneska liðið spilaði gríðarlega góða vörn í fyrstu tveimur leikhlutum leiksins og tók 40-35 forskot inn í hálfleik. Það var hinsvegar allt annað að sjá til bandaríska liðsins þriðja og fjórða leikhluta þar sem keyrt var á hröðum sóknum og náðu þeir forskotinu aftur í þriðja leikhluta.

Í fjórða leikhluta var niðurstaðan aldrei spurning en Bandaríkin hafði betur í leikhlutanum 32-17 og lauk leiknum með 21 stiga sigri Bandaríkjanna, 98-77.

Spánverjar sem leika á heimavelli í keppninni lentu ekki í vandræðum gegn Egyptalandi en eftir fyrsta leikhluta voru Spánverjar komnir með 16 stiga forskot.

Spánverjar juku smátt og smátt forskot sitt eftir því sem leið á leikinn og unnu að lokum öruggan 91-54 sigur.

Serge Ibaka, leikmaður Oklahoma City Thunder, fór fyrir liði sínu með átján stig ásamt því að taka átta fráköst.

Úrslit dagsins:

Dóminíska Lýðveldið 76-63 Nýja Sjáland

Suður-Kórea 55-89 Ástralía

Finnland 81-76 Úkraína

Slóvenía 89-68 Mexíkó

Senegal 82-75 Púertó Ríkó

Argentína 85-90 Króatía

Serbía 73-74 Frakkland

Brazilía 79-50 Íran

Litháen 75-62 Angóla

Filippseyjar 70-82 Grikkland

Tyrkland 77-98 Bandaríkin

Spánn 91-54 Egyptaland

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×