Innlent

Hraunið fer um tvo metra á mínútu

Atli Ísleifsson skrifar
Strókarnir hafa verið allt að 150 metra háir í dag.
Strókarnir hafa verið allt að 150 metra háir í dag. Vísir/Egill
„Hraunið er að verða tólf ferkílómetrar og búið að teygja sig um níu kílómetra frá syðsta gígnum,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við Vísi.

„Hraunið hefur hlaupið alveg svakalega hratt og farið um tvo metra á mínútu í dag. Það á eftir um tvo kílómetra út í Jökulsá sem þýðir að ef þetta heldur svona áfram þá gæti hraunið verið komið þangað annað kvöld eða á laugardaginn,“ segir Ármann, aðspurður um framgang mála á gosstöðvunum í dag.

Ármann segir ástandið hafa verið fjörugt á gosstöðvunum í morgun og sé það enn. Hann segir að ef hraunið nær út í Jökulsá á Fjöllum kæli áin hraunið og mögulega myndist stífla um tíma. „Þá myndi minnka í jökulsánni. Væntanlega myndi myndast eitthvað lón sunnan við hraunið sem vatnið myndi á endanum grafa sig í gegnum. Þá kæmi einhver gusa, væntanlega ekki eitthvað stórflóð, en einhver gusa.“

Ármann segir vísindamenn áfram munu fylgjast með framvindu mála. „Þetta eru svo svakaleg öfl. Þetta var voðalega glæsilegt og er búið að vera mikil læti í þessum miðgíg. Hann er búinn að vera með stróka allt að 150 metra upp í loftið. Þetta er kröftugur gosbrunnur.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×