Innlent

5,5 stiga skjálfti í nótt

Gosstöðvarnar í gærkvöldi. Kristján Már Unnarsson fylgist með jarðeldunum. Þarna er hraunið farið að renna í ála og kvíslar undan Dyngjujökli, á svokölluðum Flæðum, sem eru fyrstu drög Jökulsár á Fjöllum.
Gosstöðvarnar í gærkvöldi. Kristján Már Unnarsson fylgist með jarðeldunum. Þarna er hraunið farið að renna í ála og kvíslar undan Dyngjujökli, á svokölluðum Flæðum, sem eru fyrstu drög Jökulsár á Fjöllum. Vísir/Egill
Smáskjálftavirkni á gosstöðvunum norðan Vatnajökuls hélt áfram á svipuðum nótum og í gær fram til klukkan þrjú í nótt er skjálfti 5,5 stig að stærð varð norðantil í Bárðarbunguöskju en það er einn öflugasti skjálfti sem riðið hefur yfir á svæðinu frá því hrinan hófst.

Í framhaldinu jókst skjálftavirkni bæði á svæðinu nyrst undir Dyngjujökli suður af gosstöðvunum en þó sérstaklega í Herðubreiðartöglum. Stærsti skjálftinn þar hingað til var tæplega 3 að stærð. Sjálfvirkt staðsettir skjálftar frá miðnætti voru í  kringum 130 fram til klukkan sex í morgun.

Samkvæmt sérfræðingi á Veðurstofunni er ekki annað að sjá á vefmyndavélum en að virkni á gosstöðvunum sé svipuð og hún var í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×