Körfubolti

Treyja númer 16 hengd upp í rjáfur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stojakovic í baráttunni við Devean George í leik sex í úrslitum Vesturdeildarinnar 2002.
Stojakovic í baráttunni við Devean George í leik sex í úrslitum Vesturdeildarinnar 2002. Vísir/AFP
NBA-liðið Sacramento Kings ætlar að leggja treyju númer 16 til hliðar til heiðurs Serbanum Peja Stojakovic.

Sacramento tilkynnti í gær að treyja Stojakovic yrði hengd upp í rjáfur við hátíðlega athöfn þegar liðið mætir Oklahoma City Thunder 16. desember næstkomandi. Stojakovic bætist þar með í hóp Mitch Richmond (2), Vlade Divac (21) og Chris Webber (4) sem hefur einnig hlotnast þessi heiður.

Stojakovic, Webber og Divac voru hluti af sterku liði Sacramento um aldamótin, en Kóngarnir komust í úrslit Vesturdeildarinnar 2002 þar sem þeir töpuðu fyrir Los Angeles Lakers í frægri rimmu.

Sacramento valdi Stojakovic með 14. valrétti í nýliðavalinu 1996. Hann kom þó ekki til liðsins fyrr en tveimur árum seinna frá gríska liðinu POAK.

Stojakovic lék með Sacramento til ársins 2006. Hann skoraði 18,3 stig og tók fimm fráköst að meðaltali í leik á átta tímabilum hjá liðinu. Hann var í þrígang valinn í stjörnulið Vesturdeildarinnar sem leikmaður Sacramento.

Enginn leikmaður hefur skorað jafn margar þriggja stiga körfur (1070) í sögu Sacramento, en Stojakovic þykir með betri þriggja stiga skyttum sem hafa spilað í NBA-deildinni.

Serbinn lauk ferlinum hjá Dallas Mavericks, þar sem hann varð NBA-meistari 2011.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×