Innlent

Um 45 cm sig eftir skjálftann í morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/Auðunn
Skjálftinn sem varð í Bárðarbungu í morgun, 5,4 að stærð, er með þeim stærstu síðan gosið í Holuhrauni hófst hinn 29. ágúst síðastliðinn. Sá stærsti mældist 5,5 að stærð en alls hafa um 20 skjálftar yfir 5 að stærð mælst síðan gosið hófst.

GPS mælingar sýna að askjan seig um 20 sentímetra í kjölfar skjálftans og um 20-25 sentímetra í viðbót næstu tvær til þrjár klukkustundir eftir það. Sig í Bárðarbungu er með svipuðu móti og verið hefur síðustu daga en samkvæmt mælingunum hefur sigið í miðri öskjunni verið um 50 sentímetrar á dag. Mælingarnar sýna jafnframt óverulegar jarðskorpuhreyfingar umhverfis ganginn norðan Vatnajökuls. Þá er skjálftavirkni jafnframt með svipuðu móti og eru flestir skjálftanna við Bárðarbungu og ganginn undir Dyngjujökli.   Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs Almannavarna sem fram fór í morgun. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands ásamt fulltrúum frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúa Umhverfisstofnunar og sóttvarnarlæknis.



Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu mála:

•    Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.

•    Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.

•    Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×