Á morgun er spáð suðlægum vindi. Gasmengunin verður því líklega mest á svæði frá Tjörnesi til Bakkaflóa en þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun.
Nýja hraunið á Flæðunum, í Holuhrauni, var orðið 44 ferkílómetrar á laugardag og fer enn stækkandi. Ekkert dregur úr gosinu. Örlítið hefur dregið úr hraða sigsins í öskju Bárðarbungu og er það nú um 40 sentímetrar á dag.
Skjálftavirkni í Bárðarbungu er svipuð og síðustu daga. Sex skjálftar stærri en 3,0 hafa mælst frá hádegi í gær. Sá stærsti 5,2 var kl 12:34 í gær.
Smærri skjálftar mælast enn við norðurhluta berggangsins og við gosstöðvarnar.
Almannavarnir vilja benda fólki á að ef það finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu.
Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Vísindamannaráð almannavarna fundar aftur á morgun.

