Körfubolti

Byron Scott spáir því að Kobe verði ekki góður þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Byron Scott fær það verðuga verkefni að koma Los Angeles Lakers liðinu aftur á réttan kjöl í NBA-deildinni í körfubolta eftir erfitt tímabil þar sem liðið missti af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í tæpan áratug.

Kobe Bryant missti af nær öllu síðasta tímabili vegna meiðsla og margir bíða spenntir eftir því hvernig þessi 36 ára gamli leikmaður kemur til baka eftir erfið meiðsli. Byron Scott var spurður út í Kobe í gær.

„Ég býst við að hann spili alla 82 leikina og spili vel," sagði Byron Scott um væntingar sínar til Kobe sem spilaði aðeins sex leiki á síðasta tímabili.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er Kobe þannig leikmaður sem mun vera með 23 eða 24 stig að meðaltali í leik. Okkar aðalstarf er að halda honum heilum," sagði Byron Scott.

Kobe Bryant hefur aldrei talað um það opinberlega að hann hafi áhuga á þjálfun eftir að hann leggur skóna á hilluna en Byron Scott hefur líka enga trú á því að Kobe geti orðið góður þjálfari.

„Hann er alltof harður. Hann myndi krefjast miklu meira af leikmönnunum en menn eins og ég eða Pat Riley. Hann myndi setja sömu kröfur á leikmenn sína og hann setur á sig sjálfan. Það væri erfitt fyrir þá að hafa sömu ástríðu fyrir leiknum, hafa sömu ást á leiknum eða vera jafn skuldbundinn körfuboltanum og Kobe," sagði Scott.

Bryant er að hefja sitt 19. tímabil í NBA-deildinni en meiðslin sáu til þess að hann á ekki lengur raunhæfa möguleika á því að ógna stigameti Kareem Abdul-Jabbar. Kobe er nú í fjórða sætinu, 592 stigum á eftir Michael Jordan og 6687 stigum á eftir Abdul-Jabbar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×