Körfubolti

NBA: Meistarar Spurs með eins stigs sigur í fyrsta leik | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker var frábær í nótt.
Tony Parker var frábær í nótt. Vísir/AP
NBA-deildin hófst í nótt með þremur leikjum. NBA-meistarar San Antonio Spurs hófu titilvörnina á eins stigs sigri í spennuleik á móti Dallas Mavericks en Houston Rockets og New Orleans Pelicans unnu einnig örugga sigra í nótt.

Tony Parker skoraði 23 stig fyrir San Antonio Spurs í 101-100 sigri á Dallas Mavericks og Manu Ginobili kom með 20 stig af bekknum. Parker hitti úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum í leiknum og hefur aldrei skorað fleiri þrista í einum leik.

Tim Duncan lét ekki sitt eftir liggja hjá San Antonio og bætti við 14 stigum og 13 fráköstum en þetta er fjórtánda tímabil hans á ferlinum þar sem Duncan byrjar á tvennu í fyrsta leik. Monta Ellis skoraði 26 stig fyrir Dallas og Dirk Nowitzki var með 18 stig.

James Harden var með 32 stig fyrir Houston Rockets í 108-90 sigri á Los Angeles Lakers í Staples Center og Dwight Howard bætti við 13 stigum og 11 fráköstum auk þess að lenda í háværu rifildi við sinn gamla liðsfélaga Kobe Bryant. Kobe Bryant skoraði 19 stig fyrir Lakers-liðið og Carlos Boozer var með 17 stig.

Anthony Davis og félagar hans í New Orleans Pelicans byrjuðu vel en Davis var með 26 stig, 17 fráköst og 9 varin skot í 101-84 heimasigri á Orlando Magic. Ryan Anderson skoraði 22 stig í fyrsta leiknum eftir bakmeiðsli og nýi miðherji liðsins, Omer Asik, skoraði 14 stig og tók 17 fráköst. Tobias Harris var stigahæstur hjá Orlando með 25 stig og Nikola Vucevic var með 15 stig og heil 23 fráköst.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×