Birkimelsskóli á Barðaströnd er að verða barnlaus. Sjö nemendur skólans eru allir í efstu bekkjum grunnskólans og ekkert yngra barn er í sveitinni.
Skóli sveitarinnar á Barðaströnd var byggður fyrir talsvert fleiri nemendur en þar eru nú við nám. Raunar var hér allt morandi í krökkum á árunum fyrir 1980.
„Við vorum milli 50 og 60, ég man mest eftir að við vorum 56, og þá var það bara upp í áttunda bekk. Það voru stórir árgangar, upp í átta krakkar í bekk,“ sagði Halldóra Ingibjörg Ragnarsdóttir, bóndi á Brjánslæk, þegar hún rifjaði upp sína skólagöngu.
Í vetur er nemendurnir sjö talsins og allir í efstu árgöngum grunnskólans. Ekkert yngra barn er í sveitinni. Ef fer sem horfir er skólahaldi sjálfhætt á næstu árum.
„Það voru tuttugu krakkar þegar við byrjuðum. Svo hefur þetta allt verið að tínast í burtu og enginn að bætast við,“ sagði 15 ára dóttir Halldóru, Jarþrúður Ragna Jóhannsdóttir.
Valgeir Jens Guðmundsson, deildarstjóri Birkimelsskóla, segir þetta líta illa út. Skólakennslan sé væntanlega á leiðinni á Patreksfjörð, - ef skólahald falli niður verði það vart tekið upp aftur.
Fjallað var um byggðina á Barðaströnd í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld.
Sjö börn á Barðaströnd og öll í efstu bekkjum
Tengdar fréttir
Byggðin sem tapaði mestu vegna hvalveiðibannsins
Nærri þrjátíu árum eftir að Alþingi féllst á hvalveiðibann hefur samfélagið á Barðaströnd ekki enn náð sér eftir áfallið.