Körfubolti

Áfall fyrir Lakers: Nash verður ekkert með í vetur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steve Nash hefur átt magnaðan feril en dagar hans í Los Angeles hafa verið erfiðir.
Steve Nash hefur átt magnaðan feril en dagar hans í Los Angeles hafa verið erfiðir. vísir/getty
Steve Nash, leikstjórnandinn magnaði í röðum Los Angeles Lakers, verður ekkert með liðinu á tímabilinu vegna bakmeiðsla, en Lakers og Nash og greindu sameiginlega frá þessu í gærkvöldi.

Nash hefur verið mikið meiddur síðan Lakers skipti fjórum valréttum í nýliðavalinu fyrir hann árið 2012, en hann hefur aðeins spilað 65 leiki fyrir liðið undanfarin tvö tímabil.

Hann kom ekki við sögu í nema þremur leikjum á undirbúningstímabilinu eftir að spila aðeins fimmtán leiki á síðustu leiktíð vegna meiðsla. Hann hefur lagt mikið á sig til að ná sér heilum og fylgdist vefsíðan Grantland t.a.m. grannt með enduræfingu hans.

„Það var mitt helsta markmið að spila á þessari leiktíð og því er það mjög svekkjandi að fá ekki tækifæri til þess. Ég mun halda áfram að styðja mitt lið á meðan ég hvíli mig, en ég mun svo halda áfram að einbeita mér að því að ná mér heilum til framtíðar,“ segir Steve Nash.

Fram kemur á vef ESPN að Nash fái níu milljónir dala fyrir tímabilið, en meiðsli hans í bland við launatölurnar gera liðinu virkilega erfitt fyrir.

Ferill hans hjá Los Angeles-liðinu hefur ekki verið upp á marga fiska, en tilraun þess til að setja saman meistaralið í kringum Nash, KobeBryant, DwightHoward og PauGasol misheppnaðist algjörlega.

Lakers er spáð mjög slæmu gengi á tímabilinu og ekki hjálpar til að vera með besta leikstjórnanda liðsins meiddan út tímabilið á háum launum.

Steve Nash er þriðji á listanum yfir flestar stoðsendingar í NBA-deildinni í sögu hennar, en John Stockton og JasonKidd eru fyrir ofan hann. Þá er Nash besta vítaskytta í sögu NBA-deildarinnar, en hann hefur hitt úr 90,4 vítaskotum sínum á 18 tímabilum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×