Körfubolti

NBA í nótt: Gasol byrjar vel með Chicago - Lakers tapaði aftur | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol.
Pau Gasol. Vísir/AP
Pau Gasol var góður í fyrsta leik sínum fyrir sitt nýja lið Chicago Bulls en fjölmargir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Miami Heat vann sinn fyrsta leik eftir brottför LeBron James, Boston Celtics vann Brooklyn og þá tapaði Los Angeles Lakers annað kvöldið í röð.

Pau Gasol var með 21 stig og 11 fráköst í öruggum 104-80 sigri Chicago Bulls á New York Knicks. Taj Gibson skoraði 22 stig en Derrick Rose var með 13 stig og 5 stoðsendingar á 21 mínútu. Carmelo Anthony skoraði 14 stig fyrir New York í fyrsta leiknum undir stjórn Derek Fisher.

Chris Bosh var með 26 stig og 15 fráköst þegar Miami Heat vann 107-95 sigur á Washington Wizards í fyrsta leik liðsins eftir að LeBron James fór aftur heim til Cleveland. Norris Cole setti persónulegt met með því að skora 23 stig í leiknum en hann er nú byrjunarliðsleikstjórnandi Miami-liðsins. Dwyane Wade skoraði 21 stig fyrir Miami.

Rajon Rondo var með Boston Celtics og leiddi liðið til 121-105 sigurs á Brooklyn Nets á heimavelli. Rondo var með 13 stig og 12 stoðsendingar í leiknum en Kelly Olynyk var stigahæstur með 19 stig. Boston náði 29 stiga forskoti í þriðja leikhluta og sigurinn var sannfærandi. Bosníumaðurinn Mirza Teletovic var með 20 stig á 23 mínútum fyrir Brooklyn-liðið en Joe Johnson  og Deron Williams voru báðir með 19 stig.

Isaiah Thomas skoraði 23 stig í sínum fyrsta leik fyrir Phoenix Suns þegar liðið vann 119-99 sigur á Los Angeles Lakers en Kobe Bryant og félagar urðu fyrsta liðið til að tapa tveimur leikjum á tímabilinu því Lakers-liðið lá á móti Houston í gær. Kobe Bryant skoraði 31 stig þrátt fyrir spila ekki lokaleikhlutann en það var ekki nóg.  Marcus Morris skoraði 21 stig og jafnaði perónulegt met með því að skella niður fimm þristum og Goran Dragic var með 12 af 18 stigum sínum í þriðja leikhlutanum sem Phoenix vann 39-24.

LaMarcus Aldridge skoraði 27 stig fyrir Portland Trailblazers sem unnu 106-89 heimasigur á Oklahoma City Thunder. Thunder-liðið er eins og kunnugt er án Kevin Durant. Russell Westbrook skoraði 38 stig í fjarveru stigahæsta og besta leikmanns deildarinnar en það dugði ekki.

Dwight Howard var með 22 stig og 10 fráköst þegar Houston Rockets vann 104-93 útisigur á Utah Jazz en Houston-liðið hefur þegar unnið tvo leiki á tímabilinu. James Harden skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Úrslit úr öllum leikjum í NBA-deildinni í nótt:

Charlotte Hornets - Milwaukee Bucks 108-106 (framlenging)

Indiana Pacers - Philadelphia 76ers 103-91

Boston Celtics - Brooklyn Nets 121-105

Miami Heat - Washington Wizards 107-95

Toronto Raptors - Atlanta Hawks 109-102

Memphis Grizzlies - Minnesota Timberwolves 105-101

New York Knicks - Chicago Bulls 80-104

Denver Nuggets - Detroit Pistons 89-79

Utah Jazz - Houston Rockets 93-104

Phoenix Suns - Los Angeles Lakers 119-99

Sacramento Kings - Golden State Warriors 77-95

Portland Trail Blazers - Oklahoma City Thunder 106-89











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×