Körfubolti

Meistararnir náðu ekki að stöðva Houston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard var öflugur í nótt.
Dwight Howard var öflugur í nótt. Vísir/Getty
Houston Rockets er enn taplaust í NBA-deildinni eftir að liðið lagði meistara San Antonio í nótt, 98-81. Þetta var sjötti sigur liðsins í röð en liðið hefur ekki byrjað betur í deildinni í tæpa hálfa öld.

Tim Duncan og Tiago Splitter voru hvíldir í leiknum og það nýtti Dwight Howard sér til hins ítrasta. Howard skoraði 32 stig í leiknum og tók sextán fráköst þar að auki. Hann var kominn með 20 stig og tólf fráköst strax í fyrri hálfleik.

James Harden kom að venju með fína ógn að utan en hann skoraði 20 stig í leiknum auk þess sem hann tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Sigur Houston var fyrir vikið aldrei í hættu.

Cory Joseph skoraði átján stig fyrir San Antonio þrátt fyrir að hafa byrjað á bekknum.

Aðeins einn annar leikur fór fram í deildinni í nótt en þar hafði Portland betur gegn Dallas, 108-87.

LaMarcus Aldridge skoraði 20 stig fyrir Portland sem gerði út um leikinn með frábærum þriðja leikhluta. Heimamenn skoruðu þá 35 stig gegn átján en Dallas hafði verið með fjögurra stiga forystu í hálfleik, 50-46.

Stöðva þurfti leikinn í nokkrar mínútur í fjórða leikhluta eftir að áhorfandi féll í yfirlið. Ekki bárust frekari fregnir af líðan hans.

Dirk Nowitzky skoraði sautján stig fyrir Dallas, þar af fimmtán í fyrri hálfleik.

Úrslit næturinnar:

Houston - San Antonio 98-81

Portland - Dallas 108-87

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×