Körfubolti

Kobe ætlar ekki að stökkva frá sökkvandi skipi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Tímabilið hefur byrjað skelfilega hjá Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta en liðið hefur tapað fjórum fyrstu leikjunum sínum og aðalnýliði liðsins fótbrotnaði í fyrsta leik.

Kobe Bryant hefur líklega aldrei verið jafnlangt frá því að vinna sjötta meistaratitilinn á ferlinum og einmitt nú. Hann er orðinn 36 ára og það styttist óðfluga í síðasta leikinn.

Kobe Bryant er samt ekkert á því að sækjast eftir því að vera skipt til liðs sem á möguleika á því að vinna NBA-titilinn.

„Ég heyri af umræðunni um að Kobe ætti að losa sig undan samningnum og komast að hjá liði sem á möguleika á því að vinna titilinn. Það er ekki eitthvað sem ég geri og ég er einstaklega tryggur Lakers," sagði Kobe Bryant.

Kobe Bryant hefur skorað 24,8 stig á 32,0 mínútum í fyrstu fjórum leikum Lakers-liðsins en hefur þó aðeins hitt úr 41 prósent skota sinna.

Los Angeles Lakers tapaði síðast fjórum fyrstu leikjum sínum í NBA-deildinni veturinn 1957-58 en þá var félagið staðsett í Minneapolis.

Það er ekki alltof mikil bjartsýni að fyrsti sigurinn sé að detta inn á næstunni því liðið spilar við Phoenix Suns, Charlotte Hornets og Memphis Grizzlies í næstu þremur leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×