Körfubolti

Carmelo í 20 þúsund stiga klúbbinn | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carmelo Anthony í leiknum í nótt.
Carmelo Anthony í leiknum í nótt. Vísir/AP
Carmelo Anthony varð í nótt 40. leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til að skora 20 þúsund stig á ferlinum er hann skoraði 28 stig í sigri New York á Charlotte, 96-93.

Anthony skoraði körfuna sem sá til þess að Charlotte náði ekki að brúa bilið þegar rúm mínúta var til leiksloka en þetta var annar sigur New York í röð. Amar'e Stoudemire skoraði sautján stig fyrir liðið en Al Jefferson 21 fyrir Charlotte.

Chris Bosh skoraði 21 stig og tók ellefu fráköst fyrir Miami sem vann Toronto, 107-102, á heimavelli. Dwayne Wade var með nítján stig, ellefu fráköst og sjö stoðsendingar en Miami hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa á tímabilinu. Luol Deng var einnig öflugur með átján stig.

DeMar DeRozan skoraði 30 stig fyrir Toronto sem tapaði fyrsta leiknum sínum á tímabillinu í nótt. Liðið hefur ekki unnið Miami síðan á vormánuðum 2010.

Sacramento vann LA Clippers, 98-92, í Kaliforníuslag þar sem DeMarcus Cousins skoraði 34 stig og tók sautján fráköst. Rudy Gay var með 25 stig en bæði lið hafa nú unnið tvo leiki en tapað einum. Blake Griffin og Spencer Hawes skoruðu báðir sautján stig fyrir Clippers.

Golden State vann að síðustu Portland, 95-90. Klay Thompson tryggði gestunum sigur með körfu þegar 8,7 sekúndur voru eftir en hann skoraði alls 29 stig í leiknum. Golden State er ósigrað eftir þrjá leiki á tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×