Menning

Hrútar frestast vegna veðurblíðu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Charlotte Böving & Sigurður Sigurjónsson við tökur.
Charlotte Böving & Sigurður Sigurjónsson við tökur.
Vetrartökum á kvikmyndinni Hrútum í leikstjórn Gríms Hákonarsonar hefur verið frestað fram í janúar vegna snjóleysis í Bárðardal. Síðari hluti af tökum hefur staðið yfir nú í nóvember en síðustu tökudagarnir hafa nú verið færðir fram í janúar vegna einmuna veðurblíðu á Norðurlandi.

Í kvikmyndinni fara þeir Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson með hlutverk tveggja bræðra sem stunda búskap á samliggjandi jörðum en hafa ekki talast við í fjörtíu ár.

Framvinda sögunnar krefst þess að í Bárðardalnum sé alvöru vetur og snjór yfir öllu meðan á tökum stendur líkt og algengt er á þessum árstíma.

Vetrartökur hófust þann 10. nóvember í frosthörkum við alhvíta jörð. Nú blasa hins vegar við græn tún og fuglasöngur. Samkvæmt veðurspám er milt veður í kortunum fyrir norðan og lítil von á snjónum sem nauðsynlegur er svo tökur geti haldið áfram.

Þessi skortur á vetrarveðri veldur framleiðslunni auðvitað töluverðu raski. Tökur hafa hins vegar gengið að óskum hingað til og telja aðstandendur myndarinnar ólíklegt að tafirnar muni hafa áhrif á útgáfu myndarinnar, en ætlunin er að frumsýna hana næsta haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×