Körfubolti

Kobe Bryant fjórði maðurinn sem skorar 32.000 stig í NBA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kobe Bryant gekk sáttur af velli í nótt.
Kobe Bryant gekk sáttur af velli í nótt. vísir/getty
Los Angels Lakers vann fyrsta útileik liðsins á leiktíðinni í nótt þegar liðið lagði Atlanta Hawks, 114-109, í NBA-deildinni í körfubolta.

Þetta var þó aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu, en það er í heildina búið að spila ellefu leiki. Lakers er á botni vesturdeildarinnar með tvo sigra og níu töp.

Stóra saga leiksins var sú að Kobe Bryant skoraði 28 stig fyrir Los Angeles-liðið í leiknum auk þess sem hann tók fjögur fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og stal einum bolta.

Með stigunum 28 komst hann yfir 32.000 stiga múrinn, en hann er aðeins fjórði maðurinn í sögu NBA sem tekst að skora 32.000 stig eða meira. Hann fékk vítaskot að auki eftir að hann skoraði 32.000 stigið sem hann nýtti og lauk hann leik með 32.001 stig í heildina.

Michael Jordan er næsta skotmark Kobe Bryant.vísir/getty
Kobe vantar nú aðeins 292 stig til að komast upp fyrir Michael Jordan á listanum yfir stigahæstu leikmenn NBA frá upphafi, en Jordan skoraði 32.292 stig fyrir Chicago Bulls og Washington Wizards á sautján ára ferli í NBA-deildinni.

Jordan var þó öllu sneggri en Kobe að skora 32.000 stig. Það tók hann „aðeins“ 1.059 leiki á meðan Kobe var að spila 1.256 leikinn sinn í NBA deildinni. Bæði Kareem Abdul-Jabaar (1.194 leikir) og Karl Malone (1.235 leikir) voru fljótari en Kobe að ná þessum áfanga.

Kobe mun vafalítið ná Jordan og komast í þriðja sæti stigalistans, en það er þó öllu lengra í Karl Malone sem er í öðru sæti með 36.928 stig. Kareem Abdul-Jabbar trónir öruggur á toppnum með 38.387 stig.

Af tíu stigahæstu leikmönnum NBA-deildarinnar eru aðeins tveir sem eru að spila í deildinni, en það eru Kobe Bryant og Þjóðverjinn Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas Mavericks.

Þrír aðrir leikir fóru fram í nótt. Oklahoma City Thunder heldur áfram að eiga í erfiðleikum án Russells Westbrooks og Kevins Durants, en liðið tapaði fyrir Utah Jazz, 98-81, á útivelli í nótt.

Anthony Davis heldur áfram að spila eins og kóngur fyrir New Orleans Pelicans, en hann skoraði 28 stig og tók 9 fráköst í 106-100 útisigur á Sacramento Kings og þá lagði Milwaukee Bucks lið New York Knicks á heimavelli, 117-113.

Stigahæstir í sögu NBA-deildarinnar:

1. Kareem Abdul-Jabbar 38.387

2. Karl Malone 36.928

3. Michael Jordan 32.292

4. Kobe Bryant 32.001

5. Wilt Chamberlain 31.419

6. Shaquille O'Neal 28.596

7. Moses Malone 27.409

8. Elvin Hayes 7.313

9. Dirk Nowitzki 27.002

10. Hakeem Olajuwon 26.946

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×