Körfubolti

Þrennan tekin af LeBron James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/AP
LeBron James átti flottan leik þegar Cleveland Cavaliers vann 118-111 sigur á New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfubolta í vikunni. Mikið var skrifað um það eftir leikinn að kappinn náði sinni 38. þrennu á ferlinum eða svo héldu menn í fyrstu.

NBA-deildinni fannst hins vegar ástæða til að fara yfir tölfræði leiksins og sú yfirferð varð til þess að Lebron missti eitt frákast og eina stoðsendingu. LeBron var því með 32 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar í leiknum en ekki 32 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar.

NBA-deildin fer ekki yfir tölfræðina í öllum leikjum heldur tekur fyrir einn og einn leik inn á milli og þessi leikur lenti undir smásjánni.

LeBron James missti stoðsendingu í þriðja leikhlutanum. Tristan Thompson átti þá stoðsendingu á Kyrie Irving en sú sending var fyrst skráð á LeBron sem var ekki rétt. 

LeBron fékk einnig skráð á sig sóknarfrákast í seinni hálfleiknum en það átti hins vegar að fara á liðsfélaga hans Mike Miller.

LeBron James missti því þrennuna sína og er því enn „bara“ með 37. þrennur á ferlinum.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×