Innlent

Hraunbreiðan um 70 ferkílómetrar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/Egill
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur og er hraunbreiðan nú orðin um 70 ferkílómetrar. Þá er jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu enn mikil og alls hafa mælst um 200 skjálftar frá hádegi á föstudag. Sá stærsti varð í gærkvöld klukkan rétt rúmlega níu af stærðinni 5,2. Alls hafa mælst um tuttugu skjálftar á milli 4 og 5 að stærð síðustu tvo daga. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun.

Sigið í öskju Bárðarbungu með svipuðu móti en færslur á GPS mælum sýna að heldur hafi dregið úr landsigi að Bárðarbungu.

Í dag berst gasmengun frá eldgosinu til vesturs af gosstöðvunum. Búast má við gasmengun víða á vestanverðu landinu á svæði frá Þjórsá í suðri, vestur á Barðaströnd og norður á Húnaflóa.

Á morgun (þriðjudag) er áfram spáð vestlægri átt. Hætt er við gasmengun einnig á Vestfjörðum og víðar á Norðurlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×