Oklahoma City Thunder er næstversta liðið í NBA-deildinni í körfubolta enda aðeins búið að vinna 3 af fyrstu 15 leikjum sínum á tímabilinu. Það birti þó heldur betur yfir herbúðum OKC í gær.
Russell Westbrook og Kevin Durant, tveir af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar, hafa verið frá keppni vegna meiðsla en þeir mættu báðir á sína fyrstu æfingu í langan tíma í gær.
„Þeir æfðu báðir og litu vel út," sagði Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder við blaðamann Oklahoman.
Kevin Durant, besti leikmaður NBA-deildarinnar, er að koma til baka eftir álagsbrot í fæti en Russell Westbrook handarbrotnaði í byrjun tímabilsins.
„Við munum meta stöðuna á þeim einhvern tímann í þessari viku og ákveðum síðan framhaldið í kjölfarið á því. Þeir munu ekki spila fyrr en að þeir eru hundrað prósent tilbúnir," sagði Brooks.
Oklahoman hefur heimildir fyrir því að þeir Russell Westbrook og Kevin Durant gætu spilað sinn fyrsta leik eftir meiðslin þegar OKC mætir New York Knicks á heimavelli á föstudaginn.
Körfubolti