Körfubolti

Sænskur NBA-leikmaður dæmdur í 24 leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeffery Taylor í leik gegn Miami í fyrra.
Jeffery Taylor í leik gegn Miami í fyrra. Vísir/Getty
Jeffery Taylor, leikmamaður Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfubolta, var dæmdur í 24 leikja bann eftir að hafa verið dæmdur sekur um ofbeldi gegn kærustu sinni.

Taylor hefur þegar misst af 11 leikjum á þessu tímabili og við þá bætast aðrir 13 leikir. Hann mun ennfremur missa rétt tæplega 200 þusund dollara af kaupi sínu sem gera um 24,8 milljónir íslenskra króna.

Leikmannasamtök NBA-deildarinnar hafa gagnrýnt dóminn sem þau segja alltof harðan og í raun brot á samstarfsamningi félaga og leikmanna NBA-deildarinnar.

Jeffery Taylor er 25 ára gamall lítill framherji sem hefur spilað í NBA-deildinni frá 2012. Hann hefur bæði sænskan og bandarískan ríkisborgararétt.

Jeffery Taylor spilaði með sænska landsliðinu á EM 2013 og var þá stigahæsti leikmaður liðsins með 21,2 stig í leik.

Taylor var með 8,0 stig og 2,3 fráköst að meðaltali á 24,2 mínútum með Charlotte-liðinu á síðustu leiktíð en hann spilaði aðeins 26 leiki því hann sleit hásin í desember 2013.

Taylor var handtekinn á hóteli í East Lansing í Michigan í lok september síðastliðinn fyrir ofbeldi gegn kærustu sinni, árás og fyrir að eyðileggja eignir hótelsins. Hann viðurkenndi brotið og fékk 18 mánaða skilorðsbundinn dóm.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×