Körfubolti

Fyrsti NBA-leikmaðurinn sem kom úr skápnum er hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Jason Collins hefur ákveðið að segja skilið við NBA-deildina eftir langan feril. Hinn 35 ára miðherji vakti heimsathygli þegar hann opinberaði samkynhneigð sína í viðtali við Sports Illustrated í maí í fyrra.

Collins lék 22 leiki með Brooklyn Nets á síðasta tímabili og varð þar með fyrsti opinberlega samkynhneigði leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi. Hann hefur hins vegar verið án félags á núverandi tímabili og ákvað því að hætta eftir sextán ára feril.

„Körfuboltinn bjargaði mér,“ skrifaði Collins í dálki sínum í Sports Illustrated þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína að hætta. „Ég þurfti að upplifa að vera opinberlega samkynhneigður körfuboltamaður síðustu ár ferils míns til að geta kvatt sáttur.“

Ruðningskappinn Michael Sam ákvað að koma úr skápnum í febrúar síðastliðnum en hann var þá á mála hjá háskólaliði. St. Louis Rams valdi hann í nýliðavali NFL-deildarinnar en Sam komst ekki í lokahóp liðsins fyrir tímabilið og er nú án félags.

Sam óskaði Collins til hamingju með ákvörðun sína á Twitter-síðu sinni en sá síðarnefndi benti á að í dag væri enginn leikmaður sem spilar í ruðnings-, íshokkí- eða hafnaboltadeildunum sem hefði tilkynnt opinberlega að hann væri samkynhneigður.

„Trúið mér - þeir eru til. Það eru samkynhneigðir leikmenn í hverri einustu atvinnumannaíþrótt. Ég þekki suma þeirra persónulega,“ skrifaði Collins og benti á að það væri enn langur vegur í að leikmaður gæti komið úr skápnum án þess að óttast viðbrögð liðsfélaganna og fjölmiðla.

NBA

Tengdar fréttir

Treyjurnar hans Collins seljast rosalega vel

Það vakti gríðarlega athygli þegar Jason Collins samdi við Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta á dögunum en hann varð þar með fyrsti leikmaðurinn sem spilar í einum af fjórum stærstu atvinnumannadeildunum í Bandaríkjunum eftir að hafa komið út úr skápnum.

Kobe hrósar Collins í hástert

Blað var brotið í bandarískri íþróttasögu í gær þegar Jason Collins varð fyrsti yfirlýsti homminn til þess að spila leik í NBA-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×