Körfubolti

Love öflugur í sigri Cleveland | Hörmungargengi Philadelphia heldur áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Love skoraði 28 stig í sigri Cleveland í nótt.
Kevin Love skoraði 28 stig í sigri Cleveland í nótt. vísir/afp
Þreföld tvenna frá Michael Carter-Williams (18-10-16) dugði Philadelphia 76ers ekki til sigurs gegn Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þrátt fyrir að hafa tapað frákastabaráttunni með afgerandi hætti tókst Dallas að knýja fram sigur, 110-103, en liðið er í 6. sæti Vesturdeildarinnar.

Ekkert gengur hins vegar hjá Philadelphia sem hefur tapað öllum 16 leikjum sínum á tímabilinu.

Kevin Love skoraði 28 stig og tók tíu fráköst þegar Cleveland Cavaliers vann tólf stiga sigur, 109-97, á Indiana Pacers á útivelli.

Kyrie Irving var sömuleiðis öflugur í liði Cleveland með 24 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar. LeBron James bætti 19 stigum og sjö stoðsendingum við.

David West var stigahæstur hjá Indiana með 14 stig, en hann lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í nótt.

Gott gengi Houston Rockets á útivelli heldur áfram en í nótt vann Texas-liðið góðan sigur á Milwaukee Bucks, 117-103.

James Harden átti flottan leik með 34 stig, sex fráköst og átta stoðsendingar, en Dwight Howard lék ekki með Houston í nótt vegna meiðsla.

Nýliðinn Jabari Parker var atkvæðamestur hjá Milwaukee með 19 stig og níu fráköst.

Úrslitin í nótt:

Dallas Mavericks 110-103 Philadelphia 76ers

New Orleans Pelicans 80-83 Washington Wizards

Charlotte Hornets 75-105 Atlanta Hawks

Indiana Pacers 97-109 Cleveland Cavaliers

Los Angeles Clippers 112-96 Utah Jazz

Houston Rockets 117-103 Milwaukee Bucks

James Harden átti flottan leik fyrir Houston Michael Carter-Williams gerði sitt fyrir lánlaust lið Philadelphia Frábær sending hjá Kyrie Irving
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×