Menning

Varpa ljósi á falinn feril

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Ingileif fékk heilablóðfall árið 1997 og vann lítið að myndlist eftir það. Hún greindist síðar með heilaæxli sem dró hana til dauða árið 2010.
Ingileif fékk heilablóðfall árið 1997 og vann lítið að myndlist eftir það. Hún greindist síðar með heilaæxli sem dró hana til dauða árið 2010.
Yfirlitssýning á verkum Ingileifar Thorlacius verður opnuð í Listasafni ASÍ í dag. Samhliða sýningunni kemur út bókin Myndir Ingileifar frá útgáfufélaginu Eyju í ritstjórn Áslaugar Thorlacius, sem jafnframt er sýningarstjóri, en Hlynur Helgason skrifar texta um feril Ingileifar í bókinni.



Ingileif lést árið 2010 og Áslaug systir hennar segir feril hennar hafa verið sorglega stuttan. „Hún kom frá námi í Hollandi árið 1988 og árið 1997 fékk hún heilablóðfall. Í millitíðinni eignaðist hún dóttur og hafði öðrum hnöppum að hneppa, þannig að þetta er ekki langur ferill, en hún var rosalega dugleg á meðan hún gat unnið að myndlistinni. Hún greindist síðar með heilaæxli sem dró hana til dauða.“



Ingileif lauk málaradeild MHÍ og tveggja ára framhaldsnámi við Jan van Eyck Akademie í Maastricht, Hollandi. Á stuttum ferli sínum sem myndlistarmaður hélt hún fimm einkasýningar og tók þátt í um tug samsýninga. Verk Ingileifar spanna breitt svið en eftir hana liggja teikningar, grafíkmyndir, vatnslitamyndir, olíumálverk og skúlptúrar og í sölum safnsins verður úrval verka eftir hana. Þetta er fyrsta yfirlitssýningin á verkum hennar og Áslaug segist hafa haft það að leiðarljósi að hafa breiddina sem mesta. „Það er mikið af málverkum og nokkrir skúlptúrar, en líka grafíkmyndir, vatnslitamyndir og teikningar. Ég veit reyndar ekki hvort Ingileif hefði sett þetta svona saman, hún var alltaf mjög naum í því, en kannski hefði hún gert það á yfirlitssýningu.“



Í bókinni eru myndir af verkum Ingileifar, teknar af Vigfúsi Birgissyni ljósmyndara, Hlynur Helgason skrifar um feril hennar sem myndlistarmanns og Áslaug skrifar æviágrip hennar. „Hlynur þekkti hana vel, var bekkjarbróðir hennar í Myndlistarskólanum, og ánægjulegt að hann skuli skrifa, því ferill hennar hefur verið svolítið falinn,“ segir Áslaug. „Mér finnst líka mikilvægt að verkin hennar séu sýnd og fólk fái að njóta þeirra.“



Sýningin verður opin alla daga nema mánudaga frá klukkan 13 til 17 og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×