Helgi steinninn fær að bíða Friðrika Benónýsdóttir skrifar 11. janúar 2014 11:00 Silja ætlaði að verða myndlistarmaður en örlögin tóku í taumana og beindu henni inn í heim bókmenntanna. Fréttablaðið/GVA Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri á Forlaginu, varð sjötug í október og lét af störfum nú um áramótin. Ferill hennar er fjölbreyttur og það eru ekki mörg störf innan bókmenntaheimsins sem hún hefur ekki gegnt. En hana dreymdi um allt annan feril. Silja byrjar á því að afsaka bókastaflana í stofunni, en hún er nýbúin að tæma skrifstofuna sína á Forlaginu og hefur ekki enn fundið bókunum stað. Spurð hvort ekki sé undarlegt að vera hætt að vinna sem ritstjóri þar hlær hún bara og segir að það sé nú ekki eins og hún hafi verið það undanfarin þrjátíu og sex ár. „Ég kom þar inn haustið 2008 og hélt að ég yrði látin fara í samdrættinum eftir hrun, en Jóhann Páll tók til annarra bragða til að halda sínu starfsfólki, dró úr kaupum á aðkeyptri vinnu og lagði þar af leiðandi meira á sitt fólk, en auðvitað voru allir tilbúnir að leggja hart að sér til að halda fyrirtækinu gangandi.“ Það er erfitt að hugsa sér íslenskt bókmenntalíf án þátttöku Silju, svo áberandi hefur hún verið í bókmenntaumræðunni undanfarna áratugi. Hún hafði þó allt önnur plön um ævistarfið þegar hún lauk stúdentsprófi. „Ég ætlaði að fara í myndlistarnám og fór til Dublin í myndlistarskóla. Skömmu eftir að ég kom þangað komst ég að því að ég var ólétt og fór heim nokkrum mánuðum seinna. Þá var ég reyndar búin að komast að því að þetta myndlistarnám hentaði mér ekki, ég saknaði bókanna allt of mikið. Ég flutti heim til pabba og mömmu og fór svo í ensku og íslensku í Háskólanum eftir að barnið var fætt, tók BA-próf í báðum greinum og síðan kandídatspróf í íslensku.“Seldi langleggjaðar stelpur Fylgdi því ekkert stigma að vera einstæð móðir á þessum árum? „Það var nú ekki langur tími því ári síðar gifti ég mig og fór að búa. En vissulega steig ég út af sporinu þarna nokkrum sinnum, bæði með því að ætla mér að fara til útlanda í nám og eins því að gefast ekki upp á að ljúka svona löngu námi þótt ég væri komin með fjölskyldu.“Segðu mér aðeins meira frá myndlistinni, varstu að mála? „Nei, ég ætlaði mér að myndskreyta bækur, hafði verið teiknandi alveg frá því að ég fór að geta haldið á blýanti. Á síðustu áratugum hef ég þó aðallega teiknað dúkkulísur fyrir dætur og dætradætur. Ég vann hins vegar fyrir mér í menntaskóla með því að teikna langleggjaðar stelpur og selja í rammagerð uppi á Njálsgötu, en ferill minn sem myndlistarmaður var mjög stuttur.“ Talið um myndlistarferilinn leiðir Silju inn á frásögn af öðrum ferli sem hún hefur ekki haft hátt um í gegnum tíðina. „Ég átti örstuttan feril sem dægurlagasöngkona, söng með KK-sextettinum eitt síðsumar þegar ég var sautján ára. Við vorum ein tíu ungmenni sem Kristján Kristjánsson hljómsveitarstjóri hafði með sér á böllin á Suðurlandi. Við sungum eitt eða tvö lög hvert og þetta endaði með tónleikum í Austurbæjarbíói um haustið. En þetta var átakanlega stuttur ferill, ég veit ekki hvort hann náði mánuði. Það var gert hrikalegt grín að mér þegar ég kom í annan bekk MR eftir tónleikana og ég fékk um mig háðuleg orð í skólablaðinu, þannig að ég var ekkert að fylgja því eftir.“Á sprengjusvæði í London Það er greinilegt að Silju er margt til lista lagt og eðlilegt að spyrja hvort það hafi ekkert vafist fyrir henni að velja sér ævistarf. „Það var á tímabili dálítið erfitt að velja, jú, sérstaklega á milli myndlistarinnar og bókmenntanna og ég veit svo sem ekki hvað hefði gerst ef ég hefði ekki uppgötvað óléttuna þarna í Dublin forðum. Mér finnst nú samt ekki sennilegt að ég hefði tollað þar. Hafi samfélagið hér heima verið gamaldags á þessum árum þá var Írland svona um það bil 120 árum á eftir tímanum.“ Upphaflega hafði Silja ætlað sér að nema myndlist í London og sá draumur að búa þar rættist þegar maður hennar, Gunnar Karlsson sagnfræðingur, fékk vinnu við University College árið 1974. „Ég kláraði lokaritgerðina um vorið, við fluttum út um haustið og í þessi tvö ár sem við bjuggum þar var ég að vinna að barnabókmenntasögunni sem kom svo út 1981. Var reyndar meira og minna í húsmóðurlimbói, en fór í kvikmyndafræði í kvöldskóla í Goldsmiths-háskólanum, meira svona til gamans. Gunnar var svo alltaf heima á föstudögum og þá var frídagur húsmóðurinnar. Þá fór ég inn í borgina snemma um morgun og var þá búin að pæla í gegnum Time Out og nótera hjá mér athyglisverðar leiksýningar, bíósýningar og myndlistarsýningar. Síðan fór ég í gegnum listann eftir föngum yfir daginn. Þetta var alveg gríðarlega skemmtilegt, eini gallinn var sá að þetta var á miklum aksjóntíma hjá IRA og ef maður kom ekki heim með þeirri lest sem maður ætlaði þá fékk makinn sem heima var í magann, hvort sem það var Gunnar eða ég. Þetta var ansi slæmt ástand, þeir sprengdu allt í tætlur þarna, kaffihús og lestarstöðvar, og sprengjuhótanirnar voru nánast daglegt brauð. Það var dálítið óhuggulegt.“Bryndísi Schram að kenna Eftir heimkomuna hefur Silja verið viðloðandi bókmenntaskrif, kennslu og blaðamennsku nánast óslitið. Hún kenndi við HÍ, vann á Þjóðviljanum, var menningarritstjóri DV og ritstjóri Tímarits Máls og menningar, auk þess að skrifa fræðibækur og ævisögur, þýða fjölda bóka úr ensku og sænsku og ritstýra bókum alls kyns höfunda. Það eru ekki margir íslenskir bókmenntamenn sem ekki hafa átt meiri eða minni samskipti við hana í gegnum tíðina. Eitt af því sem Silja tók að sér eftir heimkomuna var að skrifa leikhúsgagnrýni, sem hún hefur gert síðan, hvernig kom það til? „Það var allt Bryndísi Schram að kenna. Hún var þá að skrifa um leikhús í Vísi og þurfti bregða sér frá einhverra hluta vegna. Hringdi í mig og spurði hvort ég gæti tekið að mér að skrifa um eina sýningu á meðan hún væri í burtu. Það átti nú ekki að verða meira en þetta er eins og einhver örlög, maður situr bara fastur áratugum saman.“Fleiri góðir höfundarTalandi um áratugi, hver finnst þér vera mesta breytingin í íslensku bókmenntalífi frá 1970? „Mér finnst mest áberandi hvað góðum höfundum hefur fjölgað. Stundum er sagt að við hugsum of lítið og allt of illa um gömlu höfundana okkar og sinnum þeim ekki nægilega en tilfellið er að það er ástæðulítið með langflesta. Við höfum átt nokkra virkilega góða höfunda, en ef við skoðum sviðið á undanförnum 120 árum þá hefur fjöldinn margfaldast upp á síðkastið. Þar kemur auðvitað margt til, fjölgun þjóðarinnar veldur því að fleiri taka til máls og það er meiri efniviður fyrir skáld og rithöfunda, en það er líka menntunin, fólk er betur skólað þegar það fer út á ritvöllinn og svo skipta starfslaun listamanna gríðarlega miklu máli, að fólk fái svigrúm til að einbeita sér að verkunum sem það er að skrifa. Það getur skipt sköpum og skilar sér margfalt til baka.“Ungir skáldsagnahöfundar virðast samt fá færri tækifæri en áður, hvað veldur því? „Þegar forlag er komið með stabba af rithöfundum sem það þarf að sinna þá er erfiðara að komast að, auðvitað. Það verða að vera takmörk á því hversu margar bækur eru gefnar út hjá hverju forlagi og bókamarkaðurinn þolir heldur ekki mikið meira framboð. En þetta er mjög alvarlegt mál og mér finnst starfslaunanefndirnar líka mega hugsa um það að hirða um að styrkja unga höfunda, sem til dæmis hafa gefið út í sjálfsútgáfu, til þess að vinna verk sem yrði gefið út af forlagi. Það er einfaldlega allt annað að koma út hjá forlagi sem hefur burði til að gefa bækur vel út, dreifa þeim um allt land og kynna þær opinberlega.“ Þótt Silja sé formlega hætt að vinna er þó langt frá því að hún sitji auðum höndum. Hún hóf þýðingu á bók Nóbelsverðlaunahafans Alice Munro, Dear Life, fyrsta laugardag á nýju ári – laugardagur til lukku, segir hún – og var í vikunni ráðin til að ritstýra nýrri barnabókmenntasögu sem er í undirbúningi. Hvað er fleira á döfinni? „Það eru ýmis verkefni sem ég tók með mér af Forlaginu, þýðingar sem ég þarf að fara yfir með þýðendum og einhverjar bækur sem ég var búin að setja í gang sem ritstjóri áður en ég hætti. Þannig að ég er nú ekki alveg búin að slíta naflastrenginn til Forlagsins. Helgi steinninn verður ekki brúkaður í bráð.“ Menning Mest lesið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Heitustu trendin árið 2025 Lífið Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Bönnuð innan 12 af ástæðu Lífið Heimili Hanks rétt slapp Lífið Tíu góð andlitskrem í vetrarkuldann Lífið Glæsihús í Kópavogi með stórbrotnu útsýni Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Fleiri fréttir Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri á Forlaginu, varð sjötug í október og lét af störfum nú um áramótin. Ferill hennar er fjölbreyttur og það eru ekki mörg störf innan bókmenntaheimsins sem hún hefur ekki gegnt. En hana dreymdi um allt annan feril. Silja byrjar á því að afsaka bókastaflana í stofunni, en hún er nýbúin að tæma skrifstofuna sína á Forlaginu og hefur ekki enn fundið bókunum stað. Spurð hvort ekki sé undarlegt að vera hætt að vinna sem ritstjóri þar hlær hún bara og segir að það sé nú ekki eins og hún hafi verið það undanfarin þrjátíu og sex ár. „Ég kom þar inn haustið 2008 og hélt að ég yrði látin fara í samdrættinum eftir hrun, en Jóhann Páll tók til annarra bragða til að halda sínu starfsfólki, dró úr kaupum á aðkeyptri vinnu og lagði þar af leiðandi meira á sitt fólk, en auðvitað voru allir tilbúnir að leggja hart að sér til að halda fyrirtækinu gangandi.“ Það er erfitt að hugsa sér íslenskt bókmenntalíf án þátttöku Silju, svo áberandi hefur hún verið í bókmenntaumræðunni undanfarna áratugi. Hún hafði þó allt önnur plön um ævistarfið þegar hún lauk stúdentsprófi. „Ég ætlaði að fara í myndlistarnám og fór til Dublin í myndlistarskóla. Skömmu eftir að ég kom þangað komst ég að því að ég var ólétt og fór heim nokkrum mánuðum seinna. Þá var ég reyndar búin að komast að því að þetta myndlistarnám hentaði mér ekki, ég saknaði bókanna allt of mikið. Ég flutti heim til pabba og mömmu og fór svo í ensku og íslensku í Háskólanum eftir að barnið var fætt, tók BA-próf í báðum greinum og síðan kandídatspróf í íslensku.“Seldi langleggjaðar stelpur Fylgdi því ekkert stigma að vera einstæð móðir á þessum árum? „Það var nú ekki langur tími því ári síðar gifti ég mig og fór að búa. En vissulega steig ég út af sporinu þarna nokkrum sinnum, bæði með því að ætla mér að fara til útlanda í nám og eins því að gefast ekki upp á að ljúka svona löngu námi þótt ég væri komin með fjölskyldu.“Segðu mér aðeins meira frá myndlistinni, varstu að mála? „Nei, ég ætlaði mér að myndskreyta bækur, hafði verið teiknandi alveg frá því að ég fór að geta haldið á blýanti. Á síðustu áratugum hef ég þó aðallega teiknað dúkkulísur fyrir dætur og dætradætur. Ég vann hins vegar fyrir mér í menntaskóla með því að teikna langleggjaðar stelpur og selja í rammagerð uppi á Njálsgötu, en ferill minn sem myndlistarmaður var mjög stuttur.“ Talið um myndlistarferilinn leiðir Silju inn á frásögn af öðrum ferli sem hún hefur ekki haft hátt um í gegnum tíðina. „Ég átti örstuttan feril sem dægurlagasöngkona, söng með KK-sextettinum eitt síðsumar þegar ég var sautján ára. Við vorum ein tíu ungmenni sem Kristján Kristjánsson hljómsveitarstjóri hafði með sér á böllin á Suðurlandi. Við sungum eitt eða tvö lög hvert og þetta endaði með tónleikum í Austurbæjarbíói um haustið. En þetta var átakanlega stuttur ferill, ég veit ekki hvort hann náði mánuði. Það var gert hrikalegt grín að mér þegar ég kom í annan bekk MR eftir tónleikana og ég fékk um mig háðuleg orð í skólablaðinu, þannig að ég var ekkert að fylgja því eftir.“Á sprengjusvæði í London Það er greinilegt að Silju er margt til lista lagt og eðlilegt að spyrja hvort það hafi ekkert vafist fyrir henni að velja sér ævistarf. „Það var á tímabili dálítið erfitt að velja, jú, sérstaklega á milli myndlistarinnar og bókmenntanna og ég veit svo sem ekki hvað hefði gerst ef ég hefði ekki uppgötvað óléttuna þarna í Dublin forðum. Mér finnst nú samt ekki sennilegt að ég hefði tollað þar. Hafi samfélagið hér heima verið gamaldags á þessum árum þá var Írland svona um það bil 120 árum á eftir tímanum.“ Upphaflega hafði Silja ætlað sér að nema myndlist í London og sá draumur að búa þar rættist þegar maður hennar, Gunnar Karlsson sagnfræðingur, fékk vinnu við University College árið 1974. „Ég kláraði lokaritgerðina um vorið, við fluttum út um haustið og í þessi tvö ár sem við bjuggum þar var ég að vinna að barnabókmenntasögunni sem kom svo út 1981. Var reyndar meira og minna í húsmóðurlimbói, en fór í kvikmyndafræði í kvöldskóla í Goldsmiths-háskólanum, meira svona til gamans. Gunnar var svo alltaf heima á föstudögum og þá var frídagur húsmóðurinnar. Þá fór ég inn í borgina snemma um morgun og var þá búin að pæla í gegnum Time Out og nótera hjá mér athyglisverðar leiksýningar, bíósýningar og myndlistarsýningar. Síðan fór ég í gegnum listann eftir föngum yfir daginn. Þetta var alveg gríðarlega skemmtilegt, eini gallinn var sá að þetta var á miklum aksjóntíma hjá IRA og ef maður kom ekki heim með þeirri lest sem maður ætlaði þá fékk makinn sem heima var í magann, hvort sem það var Gunnar eða ég. Þetta var ansi slæmt ástand, þeir sprengdu allt í tætlur þarna, kaffihús og lestarstöðvar, og sprengjuhótanirnar voru nánast daglegt brauð. Það var dálítið óhuggulegt.“Bryndísi Schram að kenna Eftir heimkomuna hefur Silja verið viðloðandi bókmenntaskrif, kennslu og blaðamennsku nánast óslitið. Hún kenndi við HÍ, vann á Þjóðviljanum, var menningarritstjóri DV og ritstjóri Tímarits Máls og menningar, auk þess að skrifa fræðibækur og ævisögur, þýða fjölda bóka úr ensku og sænsku og ritstýra bókum alls kyns höfunda. Það eru ekki margir íslenskir bókmenntamenn sem ekki hafa átt meiri eða minni samskipti við hana í gegnum tíðina. Eitt af því sem Silja tók að sér eftir heimkomuna var að skrifa leikhúsgagnrýni, sem hún hefur gert síðan, hvernig kom það til? „Það var allt Bryndísi Schram að kenna. Hún var þá að skrifa um leikhús í Vísi og þurfti bregða sér frá einhverra hluta vegna. Hringdi í mig og spurði hvort ég gæti tekið að mér að skrifa um eina sýningu á meðan hún væri í burtu. Það átti nú ekki að verða meira en þetta er eins og einhver örlög, maður situr bara fastur áratugum saman.“Fleiri góðir höfundarTalandi um áratugi, hver finnst þér vera mesta breytingin í íslensku bókmenntalífi frá 1970? „Mér finnst mest áberandi hvað góðum höfundum hefur fjölgað. Stundum er sagt að við hugsum of lítið og allt of illa um gömlu höfundana okkar og sinnum þeim ekki nægilega en tilfellið er að það er ástæðulítið með langflesta. Við höfum átt nokkra virkilega góða höfunda, en ef við skoðum sviðið á undanförnum 120 árum þá hefur fjöldinn margfaldast upp á síðkastið. Þar kemur auðvitað margt til, fjölgun þjóðarinnar veldur því að fleiri taka til máls og það er meiri efniviður fyrir skáld og rithöfunda, en það er líka menntunin, fólk er betur skólað þegar það fer út á ritvöllinn og svo skipta starfslaun listamanna gríðarlega miklu máli, að fólk fái svigrúm til að einbeita sér að verkunum sem það er að skrifa. Það getur skipt sköpum og skilar sér margfalt til baka.“Ungir skáldsagnahöfundar virðast samt fá færri tækifæri en áður, hvað veldur því? „Þegar forlag er komið með stabba af rithöfundum sem það þarf að sinna þá er erfiðara að komast að, auðvitað. Það verða að vera takmörk á því hversu margar bækur eru gefnar út hjá hverju forlagi og bókamarkaðurinn þolir heldur ekki mikið meira framboð. En þetta er mjög alvarlegt mál og mér finnst starfslaunanefndirnar líka mega hugsa um það að hirða um að styrkja unga höfunda, sem til dæmis hafa gefið út í sjálfsútgáfu, til þess að vinna verk sem yrði gefið út af forlagi. Það er einfaldlega allt annað að koma út hjá forlagi sem hefur burði til að gefa bækur vel út, dreifa þeim um allt land og kynna þær opinberlega.“ Þótt Silja sé formlega hætt að vinna er þó langt frá því að hún sitji auðum höndum. Hún hóf þýðingu á bók Nóbelsverðlaunahafans Alice Munro, Dear Life, fyrsta laugardag á nýju ári – laugardagur til lukku, segir hún – og var í vikunni ráðin til að ritstýra nýrri barnabókmenntasögu sem er í undirbúningi. Hvað er fleira á döfinni? „Það eru ýmis verkefni sem ég tók með mér af Forlaginu, þýðingar sem ég þarf að fara yfir með þýðendum og einhverjar bækur sem ég var búin að setja í gang sem ritstjóri áður en ég hætti. Þannig að ég er nú ekki alveg búin að slíta naflastrenginn til Forlagsins. Helgi steinninn verður ekki brúkaður í bráð.“
Menning Mest lesið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Heitustu trendin árið 2025 Lífið Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Bönnuð innan 12 af ástæðu Lífið Heimili Hanks rétt slapp Lífið Tíu góð andlitskrem í vetrarkuldann Lífið Glæsihús í Kópavogi með stórbrotnu útsýni Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Fleiri fréttir Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira