Menning

Of fyndið til að móðgast

Ugla Egilsdóttir skrifar
Davíð Örn Halldórsson tekur á móti styrk frá Carnegie Art Awards.
Davíð Örn Halldórsson tekur á móti styrk frá Carnegie Art Awards. Mynd/ Bertil Enevåg Ericson.
Í tilefni af því að hætt var við að fara með sýningu Carnegie Art Awards á flakk um Norðurlöndin verður listahópurinn A Kassen með gjörning í Kaupmannahöfn með endurgerðum kínverskra skiltamálara á verkum af Carnegie Art Award.

Öllum þátttakendum í Carnegie Art Award verður boðið til Kaupmannahafnar. Davíð Örn Halldórsson var einn af þeim sem fengu verðlaun í keppni Carnegie.

„Það er stór brandari hjá þeim að gagnrýna Carnegie-verðlaunin á þennan glettilega hátt fyrir að standa ekki við orð sín og fara með sýninguna til Kaupmannahafnar og Óslóar,“ segir Davíð Örn.

„Það er eins og þeir séu að gera það besta úr því að sýningin hafi verið minni í sniðum en áætlað var. Þetta eru ekki þeirra eigin verk, og síðan láta þeir framleiða endurgerðirnar fyrir sig. Þetta er ranghali hugmynda um það hvað er orginal. Það á allt að vera svo orginal þegar maður talar um myndlist á sýningu á borð við Carnegie, og þeir eru svolítið að gera grín að því.“

A Kassen-hópurinn sendi ljósmyndir af öllum verkunum á sýningunni til Kína.

„Þar endurgerðu kínverskir skiltamálarar allar myndirnar á sýningunni. Þessar endurgerðir verða á sýningu A Kassen í Kaupmannahöfn.“

Þetta verk eftir Davíð heitir Wheel of Fortune.
Öllum listamönnunum sem tóku þátt í sýningunni verður boðið út til Danmerkur. 

„A Kassen sér um að hýsa alla. Ég trúi ekki öðru en að fólk taki bara vel í þetta. Þetta er of fyndið til að verða fúll. 

Annars er myndlist misheilög fyrir listamönnum. Ég veit ekki hvernig sölu á verkunum verður háttað, og hvað er rétt og rangt í þeim efnum. 

Ég er mjög spenntur og mér finnst gott hjá þeim að gera þetta.“

Sautján listamenn tóku þátt í Carnegie Art Awards, og verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin. 

Að auki var einn styrkur eyrnamerktur ungum listamanni. Davíð Örn hlaut þau verðlaun. 

Verðlaunaféð var 100 þúsund sænskar krónur, sem er um tvær milljónir íslenskra króna. A Kassen fékk þriðju verðlaun.

„Þeir eru svolítið ungir og efnilegir. Þeir hafa sýnt hérna í Reykjavík í Kling og Bang og í Skaftfelli á Seyðisfirði.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×