Menning

Fjarskiptin þá og nú

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sverrir og Eva Magnúsdóttir, forstöðumaður þjónustu hjá Mílu, gerðu með sér samning.
Sverrir og Eva Magnúsdóttir, forstöðumaður þjónustu hjá Mílu, gerðu með sér samning. Mynd/Bragi Þór Jósefsson ljósmyndari
„Við settum strax upp sýningu á símtækjum þegar við opnuðum árið 2002. Það voru tæki af byggðasafninu í Skógum. Nú er sú sýning orðin að deild sem geymir minjar og sögu fjarskipta á Íslandi frá upphafi til okkar daga,“ segir Sverrir Magnússon, safnstjóri Samgöngusafnsins á Skógum.

Hann segir safnið hafa tekið við Síma-og fjarskiptasafni Þjóðminjasafnsins sem var í gömlu loftskeytastöðinni á Melunum. Þannig hafi því áskotnast búnaður og tæki sem tilheyrðu áður Landsímanum. Nú myndi þau tæki kjarnann í fjarskiptadeildinni í Samgöngusafninu.



Í framhaldinu segir hann safnið hafa byrjað að safna NMT-símtækjum. „NMT-kerfið var við lýði frá 1986 til 2010 og var aðalfjarskiptatæknin á hálendinu á því tímabili. Símtækin voru klossuð til að byrja með en þróunin var þannig að í lokin voru þau orðin nettari og ekki ólík GSM-tækjunum sem tóku við af þeim,“ útskýrir hann.



Talstöðvar eru meðal safngripanna á Skógum, allt frá fyrstu talstöðvum sem komu fyrst til landsins til nýjustu tetrastöðvanna.

Svona símar voru á sveitabæjum landsins á síðustu öld.Mynd/Samgöngusafnið á Skógum


Samgöngusafnið hefur fengið loforð frá Símanum um að styrkja starfsemi þessarar deildar fjárhagslega og í vikunni var undirritaður ámóta samningur við Mílu sem tók við dreifikerfinu af Landsímanum og byggir því á um 100 ára sögu fjarskipta.

„Þetta eru samstarfssamningar þannig að við tökum að okkur að varðveita búnað og tæki um ókomin ár þó þau séu ekki á sýningunni,“ segir Sverrir og upplýsir að safnið hafi nýlega tekið í notkun nýtt 1.750 fermetra hús, áfast við sýningarrýmið.

„Við byggðum þetta hús í kreppunni án nokkurra styrkja,“ segir hann. „Það er geymsla fyrir ökutæki og alls konar muni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×