Sársaukinn er alltaf til staðar Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 8. febrúar 2014 12:00 Guðbjörg er spennt fyrir komandi verkefni í Söngvakeppninni. Fréttablaðið/Valli Söngkonan Guðbjörg Magnúsdóttir býr í efri byggðum borgarinnar. Á einkennisplötu bíls í innkeyrslunni stendur SÖNGUR. „Maðurinn minn vildi gleðja mig með þessari áletrun en ég varð bara feimin. Nú er ég samt farin að venjast henni,“ segir Guðbjörg brosandi og býður mér sæti við borðstofuborðið. Þar kveikir hún á kertum á bakka og les heilræði dagsins úr litlu kveri: Stígurinn er fallegur. Stattu kyrr. „Þetta snýst um að njóta augnabliksins,“ segir hún og kveðst hafa lært það kornung þegar hún eignaðist fyrsta barnið sitt, soninn Magnús Óla, sem reyndist mikið fatlaður. „Ég upplifði ógnar hamingju samfara ofsalegum erfiðleikum og fann að ég yrði að staldra við því ég ætti kannski ekki morgundaginn vísan með drengnum mínum. Hann var einstakur, brosti í gegnum allt og mér fannst hann kenna mér að lifa í núinu.“ Þessa dagana snýst lífið um söng hjá Guðbjörgu. Hún syngur eitt af Eurovision-lögunum í sjónvarpinu í kvöld. Það heitir Aðeins ætluð þér og er eftir Maríu Björk Sverrisdóttur. Oft hefur hún sungið bakraddir í keppninni hér heima og árið 2000 stóð hún á sviðinu í Globen í Stokkhólmi með Einari Ágústi og Telmu og flutti með þeim lagið Tell me. „Það var eitt af mínum skemmtilegu ævintýrum í lífinu,“ segir hún brosandi. „Síðan þá hefur mig dreymt um að fara út aftur.“ Guðbjörg kennir við Söngskóla Maríu Bjarkar og er í söngkennaranámi við danska skólann Complete Vocal Institute. Þá er fyrsti sólódiskurinn hennar, Vindurinn veit, nýkominn út með lögum úr ýmsum áttum sem sum hafa fylgt henni lengi. Þá fékk lífið tilgang Guðbjörg fór til Þýskalands fyrir tvítugt sem „au-pair“ stúlka og eftir ár svissaði hún yfir í vinnu á hestabúgarði. Þar kynntist hún barnsföður sínum sem er Íslendingur. „Ég var mestalla meðgönguna úti, fannst ég vera hraust og keyrði til dæmis með hestakerru til Austurríkis og Sviss þar sem kærastinn var að keppa í hestaíþróttum. En ég var með of háan blóðþrýsting og lítið legvatn og lá tvívegis á spítala vegna gruns um legvatnsmissi sem fékkst aldrei staðfestur.“ Hún flaug heim til að fæða. „Drengurinn fæddist sitjandi og var tekinn með keisara 3. janúar 1996. Þann dag upplifði ég sterkt að líf mitt hefði fengið tilgang. Sonurinn var svolítið latur að drekka eins og oft er með keisarabörn. Það kippti sér enginn upp við það.“ Átta dögum eftir fæðinguna fékk litli drengurinn mikið flogakast. „Þarna hófst barátta hjá fagfólkinu við að finna hvað væri að og angistin og óöryggið helltist yfir mig,“ lýsir Guðbjörg. Hún bjó hjá foreldrum sínum fyrstu vikurnar en fór út til kærastans með drenginn þriggja mánaða því ekkert hafði fundist að honum og hann var kominn á lyf sem unnu gegn flogunum. Guðbjörg með mynd af Magnúsi Óla, Mola.Fréttablaðið/Valli „Ég var nálægt háskólasjúkrahúsinu í Kiel og setti mig strax í samband við það. Þar hófst rannsóknarferli og drengurinn var þar meira og minna í tvö ár,“ segir Guðbjörg. „Sambandið við barnsföðurinn var slitrótt og ég var svo heppin að fá inni í einu þeirra húsa sem Mc.Donald‘s rekur fyrir foreldra með langveik börn. Svo kynntist ég líka yndislegum hjónum sem skutu skjólshúsi yfir mig í nokkra mánuði, þau heita Hulda og Hinrik og eru hestafólk.“ Ótti á hverri nóttu Þegar Magnús Óli var tæplega tveggja ára kveðst Guðbjörg hafa ákveðið að flytja heim. „Ég var orðin þreytt á að bíða eftir einhverju kraftaverki, þetta var spurning um að búa okkur mæðginum eins gott líf og hægt var. Ég var búin að kaupa íbúð með hjálp fjölskyldunnar sem alla tíð studdi mig vel og Magnús Óli byrjaði í leikskóla tveggja og hálfs árs.“ Spurð hvernig fötlun Magnúsar Óla hafi lýst sér svarar Guðbjörg stillilega. „Hann var fjölfatlaður. Hafði ekki stjórn á hreyfingum sínum, gat ekki setið og þaðan af síður gengið. Hann talaði ekki en tjáði sig með hljóðum og augunum. Svo var hann lungnasjúklingur og síðustu átta árin sín nærðist hann bara gegnum sondu. Þetta var erfitt verkefni en sálarlega var það ekkert í líkingu við að missa hann. Það var ofsalega erfitt. Þó vissi ég að svona alvarlega veik börn verða ekki langlíf, ég óttaðist um líf hans á hverri nóttu. Í sex, sjö ár vakti ég yfir honum og gerði lítið annað en sinna honum. Barnadeild Landspítalans var okkar annað heimili og hann átti líka stuðningsmóður sem hann fór til eina helgi í mánuði og stundum oftar, frá tveggja ára aldri þar til hann lést. Það er kona sem mér þykir einstaklega vænt um.“ Eiginmaður Guðbjargar heitir Kristján Már Hauksson og saman eiga þau hjónin markaðsfyrirtækið Nordic eMarketing. „Kristján Már er mikill markaðsmaður, skrifar bækur og ferðast út um heim með fyrirlestra. Hann gekk Magnúsi Óla í föður stað og það var einstakt. Við eigum þrjár dætur. Þegar elsta dóttirin kom í heiminn fannst mér ég ekki geta sinnt báðum börnunum. Kristján Már átti líka dreng sem var oft hjá okkur á þessum árum. Þá fór Magnús Óli á sambýli fyrir börn á Holtaveginum. Þar dvaldi hann við gott atlæti þangað til hann lést, meira og minna. En ég svaf ekki samt, því samviskan nagaði og áhyggjurnar voru til staðar.“ Illskeytt krabbamein Magnús Óli dó á ferðalagi ellefu ára gamall í maí 2007. „Þetta var svokölluð Vildarbarnaferð sem Icelandair býður og eru stórkostleg fyrirbæri því þær gefa börnum, sem annars gætu hvergi farið, kost á að ferðast,“ lýsir Guðbjörg. „Ég var þá nýbúin að ljúka krabbameinsmeðferð því þegar ég var gengin rúma átta mánuði með miðdótturina uppgötvaðist æxli í öðrum olnboganum, ég kláraði meðgönguna og var skorin þegar dóttirin var þriggja vikna. Þá kom í ljós að um illskeytt krabbamein var að ræða og í eitt ár var ég í kjarnorkumeðferðum. Systir mín hugsaði um litla barnið, ég mátti ekki koma nálægt því og hvorki munnvatn né tár frá mér mátti falla á það. Mér er minnisstæð fyrsta meðferðarlotan. Þá var ég búin að af mér klippa síða hárið, vissi að það færi hvort sem væri. Svo reyrði ég brjóstin sem vildu bara framleiða næringu handa nýfædda barninu. Það var ofsalega sárt. Drengurinn minn var á spítalanum á þessum tíma og kom í hjólastólnum að heimsækja mömmu sína.“ Hér verður ekki tára bundist. „Sársaukinn er alltaf til staðar. Það er bara þannig. Stundum hellist hann yfir þegar ég leyfi mér að fara aftur inn í aðstæðurnar í huganum. En ég hef fleiri ráð en áður til að fjarlægja mig honum,“ segir hún afsakandi og heldur áfram eftir litla stund. „Ég er líka ofsalega heppin, krabbameinið hafði ekki dreift sér og ég útskrifaðist síðasta sumar.“ Við snúum talinu aftur að hinni örlagaríku utanlandsferð. Níu sæti voru tekin úr flugvélinni til að hægt væri að koma Magnúsi Óla fyrir. Svo var flogið til Ameríku. „Þetta var draumaferð lengst af. Systir mín var með og hjúkrunarkona og Magnús Óli var glimrandi hress. En á heimleiðinni sofnaði hann yfir Atlantshafinu og einhver heilaboð slökktu á lífinu. Ég var með litlu telpuna mína, eins árs, í fanginu og engin orð geta lýst líðan minni.“ Stigu brúðarvals við Vindurinn veit Eftir hinar miskunnarlausu lyfjameðferðir var Guðbjörgu ekki gefin von um að geta eignast fleiri börn. En kraftaverkið gerðist því 9. maí 2011 leit lítil stúlka dagsins ljós, hún hlaut nafnið Bryndís María. „Lífið hefur hægt og rólega farið upp á við. Það hefur gert okkur foreldrana að betri og hæfari manneskjum að mörgu leyti en líka sett sitt mark á okkur,“ segir Guðbjörg. „Eitt það fallegasta sem út úr þessari reynslu hefur komið hjá mér er auðmýkt og þakklæti fyrir það sem ég hef fengið.“ Lækningamáttur tónlistar og söngs er magnaður, að mati Guðbjargar. Það kveðst hún hafa fundið á börnum sínum, nemendunum sínum og ekki síst sjálfri sér. „Ég var stelpa með lítið sjálfstraust en öðlaðist það hægt og rólega í gegnum sönginn, það hefur eflt mig og hjálpað mér að sigrast á erfiðleikunum.“ Guðbjörg söng í mörgum uppfærslum á Broadway á sínum tíma. „Ég skaust stundum á Broadway beint af spítalanum þar sem Magnús Óli var, starfsfólkið studdi mig og sinnti honum á meðan,“ rifjar hún upp. Hún segir sönginn alltaf hafa verið númer tvö – á eftir fjölskyldunni, því hafi frægðarferillinn tekið langan tíma hjá henni og vísar þar meðal annars til fyrstu sólóplötunnar sem er nýkomin út og mikið er lagt í. Titillagið, Vindurinn veit, hefur lengi verið í uppáhaldi hjá henni. „Við hjónin dönsuðum brúðarvalsinn við það lag á sínum tíma, sungnu af Ninu Simone. Nú hef ég látið gera texta við það sem ég tileinka manninum mínum,“ upplýsir hún. Guðbjörg er að verða fertug á þessu ári. „Mér finnst gaman að þetta skuli raðast svona saman, platan, fertugsafmælið og Eurovision. Nýr og góður kafli er að hefjast.“ Tónlist Mest lesið Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Menning Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Lífið Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Menning „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Menning Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Lífið Bestu vinir sem fá að vinna við það sem þeir elska Tónlist Ofurfæðis súkkulaðikaka slær í gegn í skammdeginu Uppskriftir Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ Lífið Linda Nolan látin Lífið Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Lífið Fleiri fréttir Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Linda Nolan látin Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ „Í rauninni fyrsti íslenski samfélagsmiðillinn“ Snýst ekki bara um að vera með flottan rass Segist á batavegi og heimsækir sjúkrahúsið sem hún dvaldi á Makinn hélt framhjá: „Ég get ekki fyrirgefið“ Servíettur á hausnum á árshátíð borgarstjórnar „Ég borða allt nema lík og líkamsvessa“ Hringur á fingur og pabbi hefur tröllatrú „Mikið djamm“ fylgdi Séð & heyrt Heitasti leikarinn í Hollywood Setja börnin í forgang og slíta hjónabandinu Ferðalaginu með hugvíkkandi efnin lauk á upphafsstað Sigursteinn Másson lykillinn að fullkominni fæðingu Guðrún losnaði við uppþemdan maga og léttist líka Fimmtán daga föstu Reynis að ljúka Sonur Gretu Salomé og Elvars kominn með nafn Segir tímann ekki lækna sorgina Eldar í Hollywood: Hneyksla sig á tryggingum, leigu og launum Stjörnulífið: Framlengdi jólin í Paradís og stórafmæli á Tenerife Fjölbreyttar leiðir til að fara inn í nýtt ár Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Dóttir Hólmfríðar og Jóhanns Bergs komin með nafn Sjá meira
Söngkonan Guðbjörg Magnúsdóttir býr í efri byggðum borgarinnar. Á einkennisplötu bíls í innkeyrslunni stendur SÖNGUR. „Maðurinn minn vildi gleðja mig með þessari áletrun en ég varð bara feimin. Nú er ég samt farin að venjast henni,“ segir Guðbjörg brosandi og býður mér sæti við borðstofuborðið. Þar kveikir hún á kertum á bakka og les heilræði dagsins úr litlu kveri: Stígurinn er fallegur. Stattu kyrr. „Þetta snýst um að njóta augnabliksins,“ segir hún og kveðst hafa lært það kornung þegar hún eignaðist fyrsta barnið sitt, soninn Magnús Óla, sem reyndist mikið fatlaður. „Ég upplifði ógnar hamingju samfara ofsalegum erfiðleikum og fann að ég yrði að staldra við því ég ætti kannski ekki morgundaginn vísan með drengnum mínum. Hann var einstakur, brosti í gegnum allt og mér fannst hann kenna mér að lifa í núinu.“ Þessa dagana snýst lífið um söng hjá Guðbjörgu. Hún syngur eitt af Eurovision-lögunum í sjónvarpinu í kvöld. Það heitir Aðeins ætluð þér og er eftir Maríu Björk Sverrisdóttur. Oft hefur hún sungið bakraddir í keppninni hér heima og árið 2000 stóð hún á sviðinu í Globen í Stokkhólmi með Einari Ágústi og Telmu og flutti með þeim lagið Tell me. „Það var eitt af mínum skemmtilegu ævintýrum í lífinu,“ segir hún brosandi. „Síðan þá hefur mig dreymt um að fara út aftur.“ Guðbjörg kennir við Söngskóla Maríu Bjarkar og er í söngkennaranámi við danska skólann Complete Vocal Institute. Þá er fyrsti sólódiskurinn hennar, Vindurinn veit, nýkominn út með lögum úr ýmsum áttum sem sum hafa fylgt henni lengi. Þá fékk lífið tilgang Guðbjörg fór til Þýskalands fyrir tvítugt sem „au-pair“ stúlka og eftir ár svissaði hún yfir í vinnu á hestabúgarði. Þar kynntist hún barnsföður sínum sem er Íslendingur. „Ég var mestalla meðgönguna úti, fannst ég vera hraust og keyrði til dæmis með hestakerru til Austurríkis og Sviss þar sem kærastinn var að keppa í hestaíþróttum. En ég var með of háan blóðþrýsting og lítið legvatn og lá tvívegis á spítala vegna gruns um legvatnsmissi sem fékkst aldrei staðfestur.“ Hún flaug heim til að fæða. „Drengurinn fæddist sitjandi og var tekinn með keisara 3. janúar 1996. Þann dag upplifði ég sterkt að líf mitt hefði fengið tilgang. Sonurinn var svolítið latur að drekka eins og oft er með keisarabörn. Það kippti sér enginn upp við það.“ Átta dögum eftir fæðinguna fékk litli drengurinn mikið flogakast. „Þarna hófst barátta hjá fagfólkinu við að finna hvað væri að og angistin og óöryggið helltist yfir mig,“ lýsir Guðbjörg. Hún bjó hjá foreldrum sínum fyrstu vikurnar en fór út til kærastans með drenginn þriggja mánaða því ekkert hafði fundist að honum og hann var kominn á lyf sem unnu gegn flogunum. Guðbjörg með mynd af Magnúsi Óla, Mola.Fréttablaðið/Valli „Ég var nálægt háskólasjúkrahúsinu í Kiel og setti mig strax í samband við það. Þar hófst rannsóknarferli og drengurinn var þar meira og minna í tvö ár,“ segir Guðbjörg. „Sambandið við barnsföðurinn var slitrótt og ég var svo heppin að fá inni í einu þeirra húsa sem Mc.Donald‘s rekur fyrir foreldra með langveik börn. Svo kynntist ég líka yndislegum hjónum sem skutu skjólshúsi yfir mig í nokkra mánuði, þau heita Hulda og Hinrik og eru hestafólk.“ Ótti á hverri nóttu Þegar Magnús Óli var tæplega tveggja ára kveðst Guðbjörg hafa ákveðið að flytja heim. „Ég var orðin þreytt á að bíða eftir einhverju kraftaverki, þetta var spurning um að búa okkur mæðginum eins gott líf og hægt var. Ég var búin að kaupa íbúð með hjálp fjölskyldunnar sem alla tíð studdi mig vel og Magnús Óli byrjaði í leikskóla tveggja og hálfs árs.“ Spurð hvernig fötlun Magnúsar Óla hafi lýst sér svarar Guðbjörg stillilega. „Hann var fjölfatlaður. Hafði ekki stjórn á hreyfingum sínum, gat ekki setið og þaðan af síður gengið. Hann talaði ekki en tjáði sig með hljóðum og augunum. Svo var hann lungnasjúklingur og síðustu átta árin sín nærðist hann bara gegnum sondu. Þetta var erfitt verkefni en sálarlega var það ekkert í líkingu við að missa hann. Það var ofsalega erfitt. Þó vissi ég að svona alvarlega veik börn verða ekki langlíf, ég óttaðist um líf hans á hverri nóttu. Í sex, sjö ár vakti ég yfir honum og gerði lítið annað en sinna honum. Barnadeild Landspítalans var okkar annað heimili og hann átti líka stuðningsmóður sem hann fór til eina helgi í mánuði og stundum oftar, frá tveggja ára aldri þar til hann lést. Það er kona sem mér þykir einstaklega vænt um.“ Eiginmaður Guðbjargar heitir Kristján Már Hauksson og saman eiga þau hjónin markaðsfyrirtækið Nordic eMarketing. „Kristján Már er mikill markaðsmaður, skrifar bækur og ferðast út um heim með fyrirlestra. Hann gekk Magnúsi Óla í föður stað og það var einstakt. Við eigum þrjár dætur. Þegar elsta dóttirin kom í heiminn fannst mér ég ekki geta sinnt báðum börnunum. Kristján Már átti líka dreng sem var oft hjá okkur á þessum árum. Þá fór Magnús Óli á sambýli fyrir börn á Holtaveginum. Þar dvaldi hann við gott atlæti þangað til hann lést, meira og minna. En ég svaf ekki samt, því samviskan nagaði og áhyggjurnar voru til staðar.“ Illskeytt krabbamein Magnús Óli dó á ferðalagi ellefu ára gamall í maí 2007. „Þetta var svokölluð Vildarbarnaferð sem Icelandair býður og eru stórkostleg fyrirbæri því þær gefa börnum, sem annars gætu hvergi farið, kost á að ferðast,“ lýsir Guðbjörg. „Ég var þá nýbúin að ljúka krabbameinsmeðferð því þegar ég var gengin rúma átta mánuði með miðdótturina uppgötvaðist æxli í öðrum olnboganum, ég kláraði meðgönguna og var skorin þegar dóttirin var þriggja vikna. Þá kom í ljós að um illskeytt krabbamein var að ræða og í eitt ár var ég í kjarnorkumeðferðum. Systir mín hugsaði um litla barnið, ég mátti ekki koma nálægt því og hvorki munnvatn né tár frá mér mátti falla á það. Mér er minnisstæð fyrsta meðferðarlotan. Þá var ég búin að af mér klippa síða hárið, vissi að það færi hvort sem væri. Svo reyrði ég brjóstin sem vildu bara framleiða næringu handa nýfædda barninu. Það var ofsalega sárt. Drengurinn minn var á spítalanum á þessum tíma og kom í hjólastólnum að heimsækja mömmu sína.“ Hér verður ekki tára bundist. „Sársaukinn er alltaf til staðar. Það er bara þannig. Stundum hellist hann yfir þegar ég leyfi mér að fara aftur inn í aðstæðurnar í huganum. En ég hef fleiri ráð en áður til að fjarlægja mig honum,“ segir hún afsakandi og heldur áfram eftir litla stund. „Ég er líka ofsalega heppin, krabbameinið hafði ekki dreift sér og ég útskrifaðist síðasta sumar.“ Við snúum talinu aftur að hinni örlagaríku utanlandsferð. Níu sæti voru tekin úr flugvélinni til að hægt væri að koma Magnúsi Óla fyrir. Svo var flogið til Ameríku. „Þetta var draumaferð lengst af. Systir mín var með og hjúkrunarkona og Magnús Óli var glimrandi hress. En á heimleiðinni sofnaði hann yfir Atlantshafinu og einhver heilaboð slökktu á lífinu. Ég var með litlu telpuna mína, eins árs, í fanginu og engin orð geta lýst líðan minni.“ Stigu brúðarvals við Vindurinn veit Eftir hinar miskunnarlausu lyfjameðferðir var Guðbjörgu ekki gefin von um að geta eignast fleiri börn. En kraftaverkið gerðist því 9. maí 2011 leit lítil stúlka dagsins ljós, hún hlaut nafnið Bryndís María. „Lífið hefur hægt og rólega farið upp á við. Það hefur gert okkur foreldrana að betri og hæfari manneskjum að mörgu leyti en líka sett sitt mark á okkur,“ segir Guðbjörg. „Eitt það fallegasta sem út úr þessari reynslu hefur komið hjá mér er auðmýkt og þakklæti fyrir það sem ég hef fengið.“ Lækningamáttur tónlistar og söngs er magnaður, að mati Guðbjargar. Það kveðst hún hafa fundið á börnum sínum, nemendunum sínum og ekki síst sjálfri sér. „Ég var stelpa með lítið sjálfstraust en öðlaðist það hægt og rólega í gegnum sönginn, það hefur eflt mig og hjálpað mér að sigrast á erfiðleikunum.“ Guðbjörg söng í mörgum uppfærslum á Broadway á sínum tíma. „Ég skaust stundum á Broadway beint af spítalanum þar sem Magnús Óli var, starfsfólkið studdi mig og sinnti honum á meðan,“ rifjar hún upp. Hún segir sönginn alltaf hafa verið númer tvö – á eftir fjölskyldunni, því hafi frægðarferillinn tekið langan tíma hjá henni og vísar þar meðal annars til fyrstu sólóplötunnar sem er nýkomin út og mikið er lagt í. Titillagið, Vindurinn veit, hefur lengi verið í uppáhaldi hjá henni. „Við hjónin dönsuðum brúðarvalsinn við það lag á sínum tíma, sungnu af Ninu Simone. Nú hef ég látið gera texta við það sem ég tileinka manninum mínum,“ upplýsir hún. Guðbjörg er að verða fertug á þessu ári. „Mér finnst gaman að þetta skuli raðast svona saman, platan, fertugsafmælið og Eurovision. Nýr og góður kafli er að hefjast.“
Tónlist Mest lesið Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Menning Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Lífið Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Menning „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Menning Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Lífið Bestu vinir sem fá að vinna við það sem þeir elska Tónlist Ofurfæðis súkkulaðikaka slær í gegn í skammdeginu Uppskriftir Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ Lífið Linda Nolan látin Lífið Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Lífið Fleiri fréttir Nóg pláss fyrir tvo í sturtunni Kynferðisleg stífla hjá húsfélaginu Rakel María hætt komin: „Þið verðið drepin ef þið farið þarna upp“ Linda Nolan látin Gert að halda öllum gögnum um „Nicepool“ „Í rauninni fyrsti íslenski samfélagsmiðillinn“ Snýst ekki bara um að vera með flottan rass Segist á batavegi og heimsækir sjúkrahúsið sem hún dvaldi á Makinn hélt framhjá: „Ég get ekki fyrirgefið“ Servíettur á hausnum á árshátíð borgarstjórnar „Ég borða allt nema lík og líkamsvessa“ Hringur á fingur og pabbi hefur tröllatrú „Mikið djamm“ fylgdi Séð & heyrt Heitasti leikarinn í Hollywood Setja börnin í forgang og slíta hjónabandinu Ferðalaginu með hugvíkkandi efnin lauk á upphafsstað Sigursteinn Másson lykillinn að fullkominni fæðingu Guðrún losnaði við uppþemdan maga og léttist líka Fimmtán daga föstu Reynis að ljúka Sonur Gretu Salomé og Elvars kominn með nafn Segir tímann ekki lækna sorgina Eldar í Hollywood: Hneyksla sig á tryggingum, leigu og launum Stjörnulífið: Framlengdi jólin í Paradís og stórafmæli á Tenerife Fjölbreyttar leiðir til að fara inn í nýtt ár Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Dóttir Hólmfríðar og Jóhanns Bergs komin með nafn Sjá meira