Menning

Við orgelið í hálfa öld

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Ég hef alltaf haft gaman af því að umgangast fólk og meðan ég er svo heppinn að hafa orku og ánægju af starfinu þá held ég áfram,“ segir Jón Stefánsson.
"Ég hef alltaf haft gaman af því að umgangast fólk og meðan ég er svo heppinn að hafa orku og ánægju af starfinu þá held ég áfram,“ segir Jón Stefánsson. Fréttablaðið/GVA
„Það er víst komið að þessu þótt ótrúlegt sé. Svona líður tíminn ef maður lifir af,“ segir Jón Stefánsson um 50 ára starfsafmæli sitt við Langholtskirkju.

Hann tekur vel beiðni um símaviðtal og segir best að hespa því af. Vitnar í gamla sögu. „Það var karl í Mývatnssveitinni að leggja af stað í göngur og sagði: „Það er best að byrja á því að éta nestið, það er þá eitthvað frá.“

„Já, það eru fimmtíu ár frá því ég settist fyrst á orgelbekk hér. Það var 4. apríl 1964. Hann fékk hjartaáfall hann Helgi Þorláksson skólastjóri sem var hér organisti á þeim tíma.

Þá var hringt í doktor Róbert Abraham Ottósson, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, og hann beðinn að bjarga málum. Það voru tvær fermingarmessur daginn eftir.

Ég var á fyrsta ári í Tónskóla þjóðkirkjunnar og Tónlistarskólanum en var reyndar orðinn nokkuð vanur orgelleik því þegar ég var í fornámi spilaði ég hálfsmánaðarlega í messum hjá Óháða söfnuðinum um eins og hálfs árs skeið. Var líka alinn upp við orgelleik norður í Mývatnssveit, afi var þar organisti.

Svo ég sló til þegar til mín var leitað.“

Jón kveðst hafa leyst af í Langholtskirkju þar til hann fór norður í Mývatnsveit í sína sumarvinnu.

„Ég var oft að vinna í kaupfélaginu en eitt besta sumarið mitt var ég að sjá um netaveiðina fyrir búið í Vogum – meðan veiðiskapur í Mývatni var hlunnindi. Þá var ég oft sex til átta klukkutíma á dag úti á vatni og kom með um 200 bleikjur að landi,“ rifjar hann upp.

Í ágúst 1964 fékk Jón upphringingu af sóknarnefndarfundi í Langholtssókn, honum var boðin organistastaðan og þáði hana með þökkum.

„Hér hef ég svo verið síðan nema tvívegis farið í framhaldsnám, fyrst til München og svo til Vínarborgar.“

Skyldi Jón ætla að halda veglega upp á þessi tímamót?



„Já, við ætlum að vera með tilstand í messunni á morgun af þessu tilefni. Kórarnir þrír sem ég stjórna fá allir hlutverk í messunni, Gradualekór Langholtskirkju, Graduale Nobili með stóru stelpunum og Kór Langholtskirkju.

Aðalhátíðin verður samt í maí þegar tveir síðarnefndu kórarnir flytja Mattheusarpassíuna ásamt tveimur hljómsveitum. Passían er með stærri bitum.“

Það er sem sagt ekkert slegið af.

„Ekki í bili. Ég hef alltaf haft gaman af því að umgangast fólk og meðan ég er svo heppinn að hafa orku og ánægju af starfinu þá held ég áfram.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×