Menning

Tónlistin skekur í manni hjartatuðruna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kristján sem Brynjólfur biskup milli þeirra Þorgerðar Sólar og Alexöndru Chernyshova í hlutverkum Ragnheiðar á ólíkum aldri.
Kristján sem Brynjólfur biskup milli þeirra Þorgerðar Sólar og Alexöndru Chernyshova í hlutverkum Ragnheiðar á ólíkum aldri. Mynd/Jón Hilmar
„Það er skemmtileg tilbreyting að láta dramatískan tenór syngja Brynjólf biskup,“ segir Kristján Jóhannsson söngvari um hlutverk sitt í óperunni Skáldið og biskupsdóttirin.

Tónlistin er eftir Alexöndru Chernyshovu sem syngur hlutverk Ragnheiðar biskupsdóttur. Ásgeir Páll Ágústsson túlkar Hallgrím Pétursson en sýningin er samin og sett upp af Guðrúnu Ásmundsdóttur í tilefni 400 ára afmælis sálmaskáldsins.

Hvernig líkar Kristjáni að vera í hlutverki Brynjólfs biskups, þess mikla harðjaxls?

„Ég er búinn að fara í gegnum hlutverkið með Guðrúnu Ásmundsdóttur og hún kveikti ljós hjá mér í sambandi við Brynjólf.

Þegar hann er skoðaður ofan í kjölinn þá er hann fullur væntumþykju í garð dóttur sinnar, les henni bænirnar á hverju kvöldi sem barni og hlýjar henni á fótunum. Hann er undir þvingunum þegar hann grípur til þeirra ráða að láta hana sverja eiðinn, telur sig verða að verja heiður kirkjunnar.

Svo blygðast hann sín fyrir það sem átti sér stað og tekur það óskaplega nærri sér.“

Kristján segir flytjendurna fara með talaðan texta auk söngsins og segir Guðrúnu Ásmunds vera snilldarsögumann.

„Sjálfum finnst mér þetta vera sungið leikhúsverk,“ segir hann og bætir við: „Tónlistin skekur í manni hjartatuðruna og hljómar íslenskt í eyrum.“

Skáldið og biskupsdóttirin verður frumflutt í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd annað kvöld klukkan 20. Önnur sýning er á laugardagskvöld á sama tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.