Menning

Sterk viðbrögð við íslenska landslaginu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Hér getur fólk gengið að myndunum mínum vísum á ákveðnum stað, alltaf,“ segir Tolli í nýja galleríinu á Laugavegi 19 sem kona hans, Gunný Ísis, rekur.
"Hér getur fólk gengið að myndunum mínum vísum á ákveðnum stað, alltaf,“ segir Tolli í nýja galleríinu á Laugavegi 19 sem kona hans, Gunný Ísis, rekur. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég tel þetta einn heitasta reitinn á Laugaveginum og er mjög hamingjusamur með það,“ segir myndlistarmaðurinn Þorlákur Kristinsson, betur þekktur sem Tolli, sem opnar gallerí á Laugavegi 19 í dag, ásamt konunni sinni.

„Þetta er rosalega fallegt rými sem ég er með og í skemmtilegu nágrenni við kaffihús og bókabúðir. Fyrir mig er þetta stórkostlegt tækifæri til að vera með myndirnar mínar sýnilegar,“ segir Tolli kampakátur og kveðst munu nota hvern fermetra sem best.

Tolli er með vinnustofu sína í Laugarnesinu en segir fólk almennt ekki vaða inn á vinnustofur til listamanna og skoða verkin þeirra. Því þyki það ókurteisi.

„Fólk kvartar yfir því hvað aðgengi að listamönnum er lítið. En hér getur það gengið að mínum myndum vísum á ákveðnum stað, alltaf.“

Myndirnar í galleríinu verða bæði til sýnis og sölu, að sögn Tolla.

„Nú get ég viðrað myndirnar áður en þær seljast. Auðvitað gengur leikurinn út á að selja, en stór hluti ánægjunnar við að vinna við listmálun er að geta sýnt myndirnar og átt eitthvert stefnumót við fólk yfir þeim. Hingað til hefur verið tilviljunum háð hvort fólk hefur getað séð verk eftir mig í galleríum.“

Tolli líkir því við að vera kominn í alþjóðlegt umhverfi að opna í miðborginni.

„Laugavegurinn er fullur af ferðamönnum. Mér finnst það ferlega gaman. Ég fæ svo sterk viðbrögð við íslenska landslaginu í myndunum mínum hjá þeim sem eru gestkomandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×