Hvað um Andrarímur? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 14. apríl 2014 00:00 Kiljan birti á dögunum lista um þær bækur sem áhorfendur þáttarins telja „öndvegisrit íslenskra bókmennta“. Skemmtilegt framtak. En það er samt svolítið einkennileg tilfinning sem fylgir því hafa skrifað bók sem sett er einu sæti neðar en ástarljóð Páls Ólafssonar en ofar en til dæmis Hrafnkels saga Freysgoða eða Íslenzk menning Sigurðar Nordal. Hér fljótum vér eplin. Og erum borin saman við appelsínur, sóleyjar, hrossagauka og smjördeigshorn. Maður er eins og regnhlíf við hliðina á saumavél á skurðarborðinu.Keppt í fimmtíu metra ljóðagerð án atrennu En samt: skemmtilegt framtak. Við megum ekki taka það of hátíðlega en skulum heldur ekki forsmá það alveg. Það er til þess fallið að velta fyrir sér afköstum ritóðrar þjóðar, minna á alls konar bækur sem vert er að þekkja og rifja upp. Og það minnir okkur vonandi líka á þá höfunda og þær bækur sem gleymdust að ósekju í þessari könnun á bókmenntaminni áhorfenda Kiljunnar. Auðvitað er afkáralegt að sjá klassískum bókmenntaverkum skipað í sæti eins og sagt sé frá úrslitum í íþróttamóti: Sigraði þá Grettis saga Sólarljóð? Er Saga handa börnum eftir Svövu (sem reyndar er ekki bók heldur smásaga í bók) nokkrum sætum síðri en Rógmálmur og grásilfur Dags? Er söngur lóunnar betri en sporðaköst silungsins? Er fífill í túni betri en fugl í mýri? Listin er ómetanleg og verður ekki skipað í sæti með þessum hætti. Þegar Egill Helgason kynnti þessa könnun talaði hann um „kanón“. Það er stórt orð Hákot. Kanón er alþjóðlegt hugtak yfir safn bókmennta tiltekins mengis – til dæmis tiltekinnar þjóðar – sem myndar nokkurs konar kjarna þess bókasafns sem þjóðin flytur með sér frá kynslóð til kynslóðar, bækurnar sem maður á að þekkja og helst að hafa lesið. Þetta eru textar sem hafa til að bera mikilvægi og visst gildi vegna inntaks síns, einkenna sinna, erindis sem hefur sig yfir stundlegar aðstæður og afstöðu til annarra texta; þar hafa vinsældir meðal almennra lesenda sitt að segja – en ekki allt. Kiljulistinn er ekki sjálfur kanóninn en hann er heimild um þekkingu fólks á þessum kanón. Slíkur kanón verður ekki myndaður með skoðanakönnunum eða yfirleitt félagsvísindalegum aðferðum. Og þessi kanón verður ekki settur niður á blað í eitt skipti fyrir öll. Hann er svífandi um yfir höfðum okkar – og inni í þeim – og verður ekki negldur niður í eitt skipti fyrir öll. Hann er ekki endanlegur, samanstendur ekki af 150 bókum og ekki heldur af 500 bókum. Hann samanstendur ekki einu sinni bara af bókum, heldur líka stökum ljóðum eins og til dæmis Hafísnum eftir Matthías Jochumsson; tilteknum vísum, „Yfir kaldan eyðisand“ eftir Fjallaskáldið er dæmi um slíkt; jafnvel vísupörtum eins og „þá var öldin önnur er Gaukur bjó í stöng / þá var ei til Steinastaða leiðin löng“; eða kannski bara einni línu eins og „Mínar eru sorgirnar þungar sem blý“ sem eignuð er Guðmundi Andréssyni. Allt er þetta partur af íslenskum kanón, og verður ekkert kosið burt með atkvæðagreiðslu. Í þessum kanón eru líka tiltekin höfundarverk frekar en einstakar bækur – og tiltekin höfundarnærvera í samfélaginu, því að hlutverk rithöfunda er ekki bara að beina orðlist sinni í farveg einstakra skáldverka. Æri-Tobbi og Símon Dalaskáld lifa í íslensku bókmenntaminni þó að þeir myndu aldrei settir niður á svona virðulega lista. Flest ung skáld sem hefja skriftir þekkja til Steinars Sigurjónssonar – en hann kemst víst seint inn í þau samkvæmi sem svona leikir fara fram í. Halldór Stefánsson mótaði íslensku nútímasmásöguna, þó hann gleymist í skoðanakönnunum. Og svo framvegis. Þarna vantar líka bækur höfunda sem njóta mikillar hylli þótt einstök verk skeri sig ekki úr í ævistarfinu – manni dettur í hug Ólafur Haukur Símonarson; þarna vantar bók eins og Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson sem hafði svo sannarlega ómæld áhrif á samtíma sinn og er fyrirtaks dæmi um bók sem maður ætti að rifja upp – og þarna vantar bækur Thors Vilhjálmssonar eins og Maðurinn er alltaf einn og Fljótt fljótt sagði fuglinn, sem báðar eru tímamótaverk, hvor með sínum hætti.Opið kerfi Það er auðvitað ekkert skrýtið, en þarna eru nútímabókmenntir – bækur síðustu ára – of fyrirferðarmiklar – einkum skáldsögur – á kostnað eldri verka og bókmenntagreina sem enn bíða þess að vera uppgötvaðar á ný af lesendum. Þannig er sláandi fjarvera heillar bókmenntagreinar sem forðum var vinsæl, sagnaþáttarins sem tengir svo fallega saman Íslendingasögurnar og nútímabókmenntir; Gísla Konráðsson vantar, Jón Helgason ritstjóra, Sverri Kristjánsson og Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli, svo að aðeins séu nefndir fjórir meistarar formsins. Þarna vantar stórkostlegar bækur eins og Horfnir góðhestar eftir Ásgeir Jónsson Gottorp; og allar sjálfsævisögurnar sem þessi ritóða þjóð hefur skrifað, óþekkt fólk, sem hefur frá fleiru að segja og gerir það betur, en margur nútímaskáldsagnaritarinn. Þarna er enginn Espólín. Og þarna er engin Alexanders saga – þýðing Brands Jónssonar ábóta frá 13. öld. Þarna er engin Biblíuþýðing, hvorki Odds né Sveinbjarnar, sem myndar þó svo mikla undirstöðu íslensks ritmáls. Þarna er enginn Fjölnir. Þarna eru engir sagnadansar. Engar riddarasögur. Engar rímur! Hvað um Andrarímur? Er þetta þá ekki hluti af kanóninum? Jú, að sjálfsögðu, en almenningur þekkir kannski ekki þessi verk upp til hópa, sem segir okkur að kannski fer of mikill tími í skólakerfinu í að lesa nútímabókmenntir en of lítill í að læra að kveða rímur. Bókmenntir eru opið kerfi, ekki lokað. Og „ljóðið ratar til sinna“ eins og Þorsteinn höfuðskáld frá Hamri orðaði það svo vel. Þau núlifandi skáld sem utan þessa vals lentu mega ekki æðrast heldur muna að orð þeirra rata inn í heilabú fólks og tendra þar ljós. Skáldin skapa stund og stað. Þau vekja hugi. Og orð vex af orði af orði af orði. Og verður. Og listin er ómetanleg. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Kiljan birti á dögunum lista um þær bækur sem áhorfendur þáttarins telja „öndvegisrit íslenskra bókmennta“. Skemmtilegt framtak. En það er samt svolítið einkennileg tilfinning sem fylgir því hafa skrifað bók sem sett er einu sæti neðar en ástarljóð Páls Ólafssonar en ofar en til dæmis Hrafnkels saga Freysgoða eða Íslenzk menning Sigurðar Nordal. Hér fljótum vér eplin. Og erum borin saman við appelsínur, sóleyjar, hrossagauka og smjördeigshorn. Maður er eins og regnhlíf við hliðina á saumavél á skurðarborðinu.Keppt í fimmtíu metra ljóðagerð án atrennu En samt: skemmtilegt framtak. Við megum ekki taka það of hátíðlega en skulum heldur ekki forsmá það alveg. Það er til þess fallið að velta fyrir sér afköstum ritóðrar þjóðar, minna á alls konar bækur sem vert er að þekkja og rifja upp. Og það minnir okkur vonandi líka á þá höfunda og þær bækur sem gleymdust að ósekju í þessari könnun á bókmenntaminni áhorfenda Kiljunnar. Auðvitað er afkáralegt að sjá klassískum bókmenntaverkum skipað í sæti eins og sagt sé frá úrslitum í íþróttamóti: Sigraði þá Grettis saga Sólarljóð? Er Saga handa börnum eftir Svövu (sem reyndar er ekki bók heldur smásaga í bók) nokkrum sætum síðri en Rógmálmur og grásilfur Dags? Er söngur lóunnar betri en sporðaköst silungsins? Er fífill í túni betri en fugl í mýri? Listin er ómetanleg og verður ekki skipað í sæti með þessum hætti. Þegar Egill Helgason kynnti þessa könnun talaði hann um „kanón“. Það er stórt orð Hákot. Kanón er alþjóðlegt hugtak yfir safn bókmennta tiltekins mengis – til dæmis tiltekinnar þjóðar – sem myndar nokkurs konar kjarna þess bókasafns sem þjóðin flytur með sér frá kynslóð til kynslóðar, bækurnar sem maður á að þekkja og helst að hafa lesið. Þetta eru textar sem hafa til að bera mikilvægi og visst gildi vegna inntaks síns, einkenna sinna, erindis sem hefur sig yfir stundlegar aðstæður og afstöðu til annarra texta; þar hafa vinsældir meðal almennra lesenda sitt að segja – en ekki allt. Kiljulistinn er ekki sjálfur kanóninn en hann er heimild um þekkingu fólks á þessum kanón. Slíkur kanón verður ekki myndaður með skoðanakönnunum eða yfirleitt félagsvísindalegum aðferðum. Og þessi kanón verður ekki settur niður á blað í eitt skipti fyrir öll. Hann er svífandi um yfir höfðum okkar – og inni í þeim – og verður ekki negldur niður í eitt skipti fyrir öll. Hann er ekki endanlegur, samanstendur ekki af 150 bókum og ekki heldur af 500 bókum. Hann samanstendur ekki einu sinni bara af bókum, heldur líka stökum ljóðum eins og til dæmis Hafísnum eftir Matthías Jochumsson; tilteknum vísum, „Yfir kaldan eyðisand“ eftir Fjallaskáldið er dæmi um slíkt; jafnvel vísupörtum eins og „þá var öldin önnur er Gaukur bjó í stöng / þá var ei til Steinastaða leiðin löng“; eða kannski bara einni línu eins og „Mínar eru sorgirnar þungar sem blý“ sem eignuð er Guðmundi Andréssyni. Allt er þetta partur af íslenskum kanón, og verður ekkert kosið burt með atkvæðagreiðslu. Í þessum kanón eru líka tiltekin höfundarverk frekar en einstakar bækur – og tiltekin höfundarnærvera í samfélaginu, því að hlutverk rithöfunda er ekki bara að beina orðlist sinni í farveg einstakra skáldverka. Æri-Tobbi og Símon Dalaskáld lifa í íslensku bókmenntaminni þó að þeir myndu aldrei settir niður á svona virðulega lista. Flest ung skáld sem hefja skriftir þekkja til Steinars Sigurjónssonar – en hann kemst víst seint inn í þau samkvæmi sem svona leikir fara fram í. Halldór Stefánsson mótaði íslensku nútímasmásöguna, þó hann gleymist í skoðanakönnunum. Og svo framvegis. Þarna vantar líka bækur höfunda sem njóta mikillar hylli þótt einstök verk skeri sig ekki úr í ævistarfinu – manni dettur í hug Ólafur Haukur Símonarson; þarna vantar bók eins og Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson sem hafði svo sannarlega ómæld áhrif á samtíma sinn og er fyrirtaks dæmi um bók sem maður ætti að rifja upp – og þarna vantar bækur Thors Vilhjálmssonar eins og Maðurinn er alltaf einn og Fljótt fljótt sagði fuglinn, sem báðar eru tímamótaverk, hvor með sínum hætti.Opið kerfi Það er auðvitað ekkert skrýtið, en þarna eru nútímabókmenntir – bækur síðustu ára – of fyrirferðarmiklar – einkum skáldsögur – á kostnað eldri verka og bókmenntagreina sem enn bíða þess að vera uppgötvaðar á ný af lesendum. Þannig er sláandi fjarvera heillar bókmenntagreinar sem forðum var vinsæl, sagnaþáttarins sem tengir svo fallega saman Íslendingasögurnar og nútímabókmenntir; Gísla Konráðsson vantar, Jón Helgason ritstjóra, Sverri Kristjánsson og Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli, svo að aðeins séu nefndir fjórir meistarar formsins. Þarna vantar stórkostlegar bækur eins og Horfnir góðhestar eftir Ásgeir Jónsson Gottorp; og allar sjálfsævisögurnar sem þessi ritóða þjóð hefur skrifað, óþekkt fólk, sem hefur frá fleiru að segja og gerir það betur, en margur nútímaskáldsagnaritarinn. Þarna er enginn Espólín. Og þarna er engin Alexanders saga – þýðing Brands Jónssonar ábóta frá 13. öld. Þarna er engin Biblíuþýðing, hvorki Odds né Sveinbjarnar, sem myndar þó svo mikla undirstöðu íslensks ritmáls. Þarna er enginn Fjölnir. Þarna eru engir sagnadansar. Engar riddarasögur. Engar rímur! Hvað um Andrarímur? Er þetta þá ekki hluti af kanóninum? Jú, að sjálfsögðu, en almenningur þekkir kannski ekki þessi verk upp til hópa, sem segir okkur að kannski fer of mikill tími í skólakerfinu í að lesa nútímabókmenntir en of lítill í að læra að kveða rímur. Bókmenntir eru opið kerfi, ekki lokað. Og „ljóðið ratar til sinna“ eins og Þorsteinn höfuðskáld frá Hamri orðaði það svo vel. Þau núlifandi skáld sem utan þessa vals lentu mega ekki æðrast heldur muna að orð þeirra rata inn í heilabú fólks og tendra þar ljós. Skáldin skapa stund og stað. Þau vekja hugi. Og orð vex af orði af orði af orði. Og verður. Og listin er ómetanleg.