Framsókn með sterkustu evrurökin Þorsteinn Pálsson skrifar 19. apríl 2014 07:00 Ásgeir Jónsson hagfræðingur er höfundur efnahags- og peningamálakaflans í skýrslu alþjóðastofnunar um mat á stöðu aðildarviðræðnanna. Þegar skýrslan var kynnt benti hann á að sennilega væri krafan um endurgreiðslu húsnæðislána ein skýrasta vísbendingin um að þolinmæðin gagnvart óstöðugleika og fallvaltri krónu væri þrotin. Ríkisstjórnin þreytist ekki á að segja þjóðinni að hrun krónunnar hafi verið mesta gæfa þjóðarinnar í alþjóðlegu fjármálakreppunni. Á sama tíma segir hún að gengishrunið hafi verið forsendubrestur sem skattborgararnir þurfi að bæta þeim sem skulduðu húsnæðislán. Enginn slær hendi á móti peningum. En það sem flestir eiga erfitt með að skilja er þetta: Hvernig gat gengishrunið bæði verið gæfa og bótaskyldur forsendubrestur? Eðli gengisfellingar er að flytja fjármuni frá heimilum til útflutningsfyrirtækja. Krafan um að fá forsendubrestinn bættan bendir ótvírætt til þess að almenningur sætti sig ekki við að gjaldmiðillinn sé notaður með þessum hætti. Gengisfellingin sem ríkisstjórnin lofsyngur er einfaldlega brestur á forsendum í augum kjósenda. Þegar stjórnmálamenn viðurkenna bótakröfu af þessum sökum hafa þeir í reynd fallist á að gengisfellingar eru ekki lukkuhjól eða gæfumerki. Sú ákvörðun meirihluta Alþingis að niðurgreiða skuldir einstaklinga vegna gengishruns er í verki viðurkenning á því að gjaldmiðillinn er ónothæfur. Það er eins og að hrópa upp í vindinn að afneita því með orðum þegar verkin segja aðra sögu. Að þessu virtu má segja að Framsókn sé með sterkustu rökin fyrir nýjum stöðugum gjaldmiðli.Skaðabætur fyrir uppbætur Engin önnur Evrópuþjóð hefur greitt jafn háar skaðabætur úr ríkissjóði vegna tjóns sem gjaldmiðillinn hefur valdið. Forsætisráðherra segir reyndar að það sé heimsmet. Eftir lögmáli rökræðunnar er hin hliðin á því meti lélegasti gjaldmiðill í heimi. Þá kunna einhverjir að spyrja: Er ekki ljómandi gott að hafa kerfi þar sem heimilin borga uppbætur til útflutningsfyrirtækjanna og ríkissjóður borgar heimilunum skaðabætur fyrir að hafa greitt uppbæturnar? Verkurinn er sá að það kerfi er uppskrift að óðaverðbólgu. Það er svo vel þekkt Íslandssaga að óþarfi er að ganga á vegginn til að læra þau sannindi. Ríkisstjórnin telur að hún geti náð þessum þremur markmiðum samtímis: 1) Að varðveita fullt sjálfstæði í peningamálum. 2) Að halda genginu föstu. 3) Að tryggja frjálsa fjármagnsflutninga. Í skýrslu alþjóðastofnunar er hins vegar bent á að það sé nú almennt viðurkennt innan hagfræðinnar að ekkert land geti náð öllum þremur markmiðunum í einu. Þau verði alltaf að velja einhver tvö af þessum þremur. Þessi veruleiki skilur okkur eftir með val. Á annað borðið getum við valið höft og stöðugleika. Á hitt getum við kosið aðild að myntbandalagi og stöðugleika. Ríkisstjórnin telur sig hins vegar geta gert það sem hagfræðin telur ógerlegt. Hætt er við að sú tilraun endi með því að við náum ekki stöðugleikamarkmiðinu sem krafan um bætur fyrir forsendubrestinn sýnir að kjósendur setja í forgang. Fari fram sem horfir er því eins víst að við festumst á ný í hringrás skaðabóta fyrir uppbætur. Það er afturför en ekki framför.Velferðarbati Í skýrslu alþjóðastofnunar er fyrst og fremst verið að meta stöðu aðildarviðræðnanna og svara þeirri spurningu hvort skynsamlegt sé að halda þeim áfram. Í kaflanum um efnahags- og peningamál er þó gengið lengra. Þar er reynt að svara þeirri spurningu hvort aðild að evrópska myntbandalaginu sé fýsilegur kostur. Niðurstaðan er laus við tæpitungu. Þar er sagt að upptaka evru sé einn stærsti einstaki velferðarávinningur sem landsmenn eiga völ á. Þessi ákveðna niðurstaða rímar vel við þær ályktanir sem draga má af yfirgripsmikilli og hnausþykkri greinargerð Seðlabankans um peningamálin og mögulega kosti á öðrum myntum. Munurinn er sá að í nýju skýrslunni er talað skýrt. Engin dul er dregin á þá staðreynd að upptaka annarrar myntar felur í sér ýmsar fórnir. Bent er á að skammtímasveiflur í atvinnuleysi geti orðið meiri þó að ekkert bendi til að atvinnustig til lengri tíma yrði lakara. En þegar annar efnahagslegur ávinningur er metinn þykir enginn vafi leika á að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu betur varðir með evru en krónu. Þessi niðurstaða rímar líka vel við þann almannavilja sem lesa má út úr óþolinu gagnvart forsendubresti endurtekinna gengislækkana. Þegar öllu er á botninn hvolft hljóta menn að velta fyrir sér hvernig það megi vera að pólitíkin geti lokað bæði augum og eyrum þegar svo afgerandi fræðilegt álit liggur fyrir. Og þó snýst þetta allt um höft eða frelsi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Ásgeir Jónsson hagfræðingur er höfundur efnahags- og peningamálakaflans í skýrslu alþjóðastofnunar um mat á stöðu aðildarviðræðnanna. Þegar skýrslan var kynnt benti hann á að sennilega væri krafan um endurgreiðslu húsnæðislána ein skýrasta vísbendingin um að þolinmæðin gagnvart óstöðugleika og fallvaltri krónu væri þrotin. Ríkisstjórnin þreytist ekki á að segja þjóðinni að hrun krónunnar hafi verið mesta gæfa þjóðarinnar í alþjóðlegu fjármálakreppunni. Á sama tíma segir hún að gengishrunið hafi verið forsendubrestur sem skattborgararnir þurfi að bæta þeim sem skulduðu húsnæðislán. Enginn slær hendi á móti peningum. En það sem flestir eiga erfitt með að skilja er þetta: Hvernig gat gengishrunið bæði verið gæfa og bótaskyldur forsendubrestur? Eðli gengisfellingar er að flytja fjármuni frá heimilum til útflutningsfyrirtækja. Krafan um að fá forsendubrestinn bættan bendir ótvírætt til þess að almenningur sætti sig ekki við að gjaldmiðillinn sé notaður með þessum hætti. Gengisfellingin sem ríkisstjórnin lofsyngur er einfaldlega brestur á forsendum í augum kjósenda. Þegar stjórnmálamenn viðurkenna bótakröfu af þessum sökum hafa þeir í reynd fallist á að gengisfellingar eru ekki lukkuhjól eða gæfumerki. Sú ákvörðun meirihluta Alþingis að niðurgreiða skuldir einstaklinga vegna gengishruns er í verki viðurkenning á því að gjaldmiðillinn er ónothæfur. Það er eins og að hrópa upp í vindinn að afneita því með orðum þegar verkin segja aðra sögu. Að þessu virtu má segja að Framsókn sé með sterkustu rökin fyrir nýjum stöðugum gjaldmiðli.Skaðabætur fyrir uppbætur Engin önnur Evrópuþjóð hefur greitt jafn háar skaðabætur úr ríkissjóði vegna tjóns sem gjaldmiðillinn hefur valdið. Forsætisráðherra segir reyndar að það sé heimsmet. Eftir lögmáli rökræðunnar er hin hliðin á því meti lélegasti gjaldmiðill í heimi. Þá kunna einhverjir að spyrja: Er ekki ljómandi gott að hafa kerfi þar sem heimilin borga uppbætur til útflutningsfyrirtækjanna og ríkissjóður borgar heimilunum skaðabætur fyrir að hafa greitt uppbæturnar? Verkurinn er sá að það kerfi er uppskrift að óðaverðbólgu. Það er svo vel þekkt Íslandssaga að óþarfi er að ganga á vegginn til að læra þau sannindi. Ríkisstjórnin telur að hún geti náð þessum þremur markmiðum samtímis: 1) Að varðveita fullt sjálfstæði í peningamálum. 2) Að halda genginu föstu. 3) Að tryggja frjálsa fjármagnsflutninga. Í skýrslu alþjóðastofnunar er hins vegar bent á að það sé nú almennt viðurkennt innan hagfræðinnar að ekkert land geti náð öllum þremur markmiðunum í einu. Þau verði alltaf að velja einhver tvö af þessum þremur. Þessi veruleiki skilur okkur eftir með val. Á annað borðið getum við valið höft og stöðugleika. Á hitt getum við kosið aðild að myntbandalagi og stöðugleika. Ríkisstjórnin telur sig hins vegar geta gert það sem hagfræðin telur ógerlegt. Hætt er við að sú tilraun endi með því að við náum ekki stöðugleikamarkmiðinu sem krafan um bætur fyrir forsendubrestinn sýnir að kjósendur setja í forgang. Fari fram sem horfir er því eins víst að við festumst á ný í hringrás skaðabóta fyrir uppbætur. Það er afturför en ekki framför.Velferðarbati Í skýrslu alþjóðastofnunar er fyrst og fremst verið að meta stöðu aðildarviðræðnanna og svara þeirri spurningu hvort skynsamlegt sé að halda þeim áfram. Í kaflanum um efnahags- og peningamál er þó gengið lengra. Þar er reynt að svara þeirri spurningu hvort aðild að evrópska myntbandalaginu sé fýsilegur kostur. Niðurstaðan er laus við tæpitungu. Þar er sagt að upptaka evru sé einn stærsti einstaki velferðarávinningur sem landsmenn eiga völ á. Þessi ákveðna niðurstaða rímar vel við þær ályktanir sem draga má af yfirgripsmikilli og hnausþykkri greinargerð Seðlabankans um peningamálin og mögulega kosti á öðrum myntum. Munurinn er sá að í nýju skýrslunni er talað skýrt. Engin dul er dregin á þá staðreynd að upptaka annarrar myntar felur í sér ýmsar fórnir. Bent er á að skammtímasveiflur í atvinnuleysi geti orðið meiri þó að ekkert bendi til að atvinnustig til lengri tíma yrði lakara. En þegar annar efnahagslegur ávinningur er metinn þykir enginn vafi leika á að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu betur varðir með evru en krónu. Þessi niðurstaða rímar líka vel við þann almannavilja sem lesa má út úr óþolinu gagnvart forsendubresti endurtekinna gengislækkana. Þegar öllu er á botninn hvolft hljóta menn að velta fyrir sér hvernig það megi vera að pólitíkin geti lokað bæði augum og eyrum þegar svo afgerandi fræðilegt álit liggur fyrir. Og þó snýst þetta allt um höft eða frelsi.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun