Menning

Verk Gunnars langt frá því að vera fullkönnuð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Eitt af markmiðum okkar með málþinginu er að draga fram aðrar hliðar á Gunnari en hann er þekktastur fyrir,“ segir Skúli Björn Gunnarsson.
Fréttablaðið/Gva
"Eitt af markmiðum okkar með málþinginu er að draga fram aðrar hliðar á Gunnari en hann er þekktastur fyrir,“ segir Skúli Björn Gunnarsson. Fréttablaðið/Gva Fréttablaðið/GVA
Skáld á ekki samleið með neinum… er yfirskrift málþings um Gunnar Gunnarsson í Norræna húsinu á morgun milli klukkan 13.30 og 17. Þann dag verða liðin 125 ár frá fæðingu skáldsins.

„Þetta afmæli er gott tilefni til málþings,“ segir Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

„Ekki síst vegna þess að hann Oskar Vistdal, rithöfundur og þýðandi, hefur nýlokið við bók um Gunnar og segir okkur frá henni. Þar dregur hann fram skemmtilega hluti sem ekki hafa verið skoðaðir áður, svo sem bréfaskipti Gunnars við norska höfunda eins og Einar Seim og Olaf Duun.“

Fleira áhugavert er á dagskrá þingsins. Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur fjallar um skandivisma skáldsins, Áskell Másson tónskáld segir frá glímu sinni við að semja Söngva um vorið sem eru innblásnir af Sonnettusveig Gunnars og Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur fyrsta hluta verksins.

Róbert Haraldsson prófessor verður með hugleiðingu um síðasta skáldverk Gunnars og Kristján Jóhann Jónsson dósent talar um tvo heimsborgara. Að lokum mun Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur fjalla um barnasögur Gunnars sem voru myndskreyttar af sama teiknara í Bretlandi og myndskreytti sögur Enid Blyton.

„Sennilega hefur skáldið hugsað þær fyrst bara fyrir strákana sína,“ giskar Skúli Björn á og segir þær enn einn vinkilinn á Gunnari Gunnarssyni.

„Eitt af markmiðum okkar með málþinginu er að draga fram aðrar hliðar á Gunnari en hann er þekktastur fyrir. Það vantar ekki að menn geti haldið áfram að stúdéra Gunnar. Verk hans eru langt frá því að vera fullkönnuð.“

Um 30 þúsund manns koma í Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri á ári að sögn Skúla Björns.

„Við reynum að haga hlutum þannig að þegar fólk fer frá Skriðuklaustri finnist því það þurfa að fara að lesa bók eftir Gunnar, hvort sem það hefur þekkt til hans áður eða ekki.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×