Menning

Leikið með píanóið

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Tinna Þorsteinsdóttir:
„Þessi sýning er búin að vera í vinnslu í eitt og hálft ár og ég hef verið í stanslausu samtali við listamennina.“
Tinna Þorsteinsdóttir: „Þessi sýning er búin að vera í vinnslu í eitt og hálft ár og ég hef verið í stanslausu samtali við listamennina.“ Vísir/Vilhelm
„Píanóið hefur auðvitað alltaf verið tjáningartæki tónlistarmanna en í sýningunni Píanói taka alls konar listamenn þátt í að nota það sem tjáningarmiðil,“ segir Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari, sem er sýningarstjóri Píanós, sýningar sem opnuð verður í Listasafni Íslands í dag.

„Þau túlka það hvert á sinn hátt eins og búast má við. Fyrst og fremst er þetta myndlistarsýning og djásn sýningarinnar er verk Dieters Roth og barna hans, Björns og Veru, sem var flutt til landsins,“ heldur Tinna áfram. „En á laugardaginn er gjörningasýning þar sem leikið er með verkin í rýminu og áhorfendum þannig gefin tenging við listaverkin.“



Á sýningunni eru verk eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Björn Roth, Odd Roth og Einar Roth, Dieter Roth og Björn Roth, Einar Torfa Einarsson, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Margréti Bjarnadóttur, Nikulás Stefán Nikulásson, Pál Ivan frá Eiðum og Rafael Pinho og eru mörg verkanna gerð sérstaklega fyrir þessa sýningu.



Opnunin er klukkan 15 í dag en dagskráin á laugardaginn hefst með sýningarstjóraspjalli Tinnu klukkan 13 og gjörningasýningin tekur svo við klukkan 14.

„Ég ætla að spjalla um sýninguna út frá sjónarhóli píanóleikarans,“ segir Tinna. „Þessi sýning er búin að vera í vinnslu í eitt og hálft ár og ég hef verið í stanslausu samtali við listamennina þannig að það eru ýmsir þættir sem ég velti upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×