Menning

Ég hef alltaf verið melódíukarl

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta er allt eins í einhverju ævintýri. Auðvitað er ég þakklátur,“ segir Gunnar.
"Þetta er allt eins í einhverju ævintýri. Auðvitað er ég þakklátur,“ segir Gunnar. Fréttablaðið/Daníel
„Þetta er allt eins og í einhverju ævintýri. Auðvitað er ég þakklátur. Það er alltaf ljúft að vera viðurkenndur fyrir starf sitt og bara nógu gaman að vera einn af þeim sem eru tilnefndir til Grímuverðlauna.

Stór partur af heiðrinum fyrir Ragnheiði er því að þakka að Íslenska óperan tók hana upp á sína arma og gerði henni svo góð skil.“

Svo ertu valinn borgarlistamaður 2014. Er það viðurkenning fyrir unnin verk eða felur það í sér einhverjar skyldur?

„Ég spurði einmitt sömu spurningar en titlinum fylgja engar kvaðir.“

Þú ert ekkert að ferðast um heiminn sem fulltrúi Reykjavíkurborgar, svona eins og fegurðardrottningarnar gera?

„Nei, guð minn góður!“

Þó Gunnar sé alltaf kenndur við Keflavík þá hefur hann búið í borginni frá 1967 og kveðst alltaf hafa kunnað vel við sig.

Hann hefur heldur ekki setið auðum höndum. Er einn afkastamesti tónlistarhöfundur Íslendinga og hefur samið bæði dægurlög og sígildari verk. Svo er hann snjall gítarleikari eins og alþjóð þekkir, hljómsveitarstjóri, útsetjari og upptökustjóri.

Gunnar kveðst bæði vinna fyrir aðra og semja tónlist af eigin hvötum og óperan Ragnheiður sé alfarið hans hugmynd.

„Ég vissi náttúrlega ekkert hvort ég gæti þetta en hef lengi hrifist af óperum og svo hef ég alltaf verið melódíukarl svo mér fannst eins og þetta form mundi henta mér. Svo ég setti hausinn undir mig og lagði af stað.“

Með góðum árangri.

„Já, en maður veit aldrei neitt fyrirfram. Það er eins og í poppinu. Stundum býr maður til lag sem maður heldur að geti bara gert sig vel en er svo kannski sá eini sem heldur það.“

Þér hefur ekki vegnað sérlega vel í Júróvisjón. Ætlarðu samt ekki að taka þátt oftar?



„Maður á aldrei að segja aldrei. En mér fannst það dálítið erfitt. Það var svo mikil spenna sem fylgdi því og hafði áhrif á alla fjölskylduna, það hljóp svo mikill keppnisandi í hana að ég fékk eiginlega nóg. Þó finnst mér að við sem semjum mikið af lögum eigum að taka þátt í þessari keppni. Bara fyrir okkar land.“

Það er fallega hugsað. En hvað ertu helst að sýsla núna, annað en að taka á móti verðlaunum?

„Ja, við Friðrik Erlings erum byrjaðir að leita að efni í aðra óperu. Erum svona að lesa okkur til og tala saman en ekki búnir að ákveða neitt.“

Eftir Gunnar Þórðarson liggja yfir 650 lög sem gefin hafa verið út á hljómplötum.

Hann var einn af stofnendum Hljóma í Keflavík sem heilluðu bítlakynslóðina á árunum 1963 til 1969 og hljómsveitarinnar Trúbrots sem kom í kjölfar Hljóma.

Árið 1998 var hann einn af stofnendum „Guitar Islancio“, sem var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur á menningarborgarárinu 2000 og ferðaðist víða um heim.

Á árunum 1982-2002 var Gunnar hljómsveitarstjóri á Broadway og setti þar upp margar vinsælar sýningar ásamt Agli Eðvarðssyni.

Hann hefur samið tónlist við sjónvarpsmyndirnar Djáknann frá Myrká og Steinbarn og við kvikmyndirnar Agnesi, Reykjavík Reykjavík og Óðal feðranna. Einnig við söngleikina Á köldum klaka og Örfá sæti laus.

Í tilefni af kristnitökuhátíðinni árið 2000 var frumflutt Heilög messa fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara eftir Gunnar og árið 2005 önnur messa í minningu Brynjólfs biskups, í tilefni þess að 400 ár voru liðin frá fæðingu hans.

Árið 2009 hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika ásamt sjö einsöngvurum þar sem flutt var Söngbók Gunnars Þórðarsonar.

Nýjasta stórafrekið er tónlist við óperuna Ragnheiði sem frumflutt var í Skálholti í fyrrasumar og færð upp af Íslensku óperunni í Hörpu í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×