Menning

Fuglatónleikar, aríur og fingraflugeldar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Carlos Cara Aguillera, Ástríður Alda Sigurðardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Grímur Helgason, Hafdís Vigfúsdóttir og Kristján Karl Bragason. Á myndina vantar Ellu Völu Ármannsdóttur og Margréti Hrafnsdóttur.
Carlos Cara Aguillera, Ástríður Alda Sigurðardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Grímur Helgason, Hafdís Vigfúsdóttir og Kristján Karl Bragason. Á myndina vantar Ellu Völu Ármannsdóttur og Margréti Hrafnsdóttur. Mynd/Vigfús Hallgrímsson
„Mesta nýnæmið er kannski fuglatónleikarnir á sólstöðum sem verða haldnir í samvinnu við heimamanninn Hjörleif Hjartarson,“ segir Kristján Karl Bragason píanóleikari, spurður út í dagskrá tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík.

Hátíðin er í Menningarhúsinu Bergi og byrjar í kvöld klukkan átta með fyrstu tónleikunum af þrennum. Þá hljóma verk gamalla meistara, meðal annars Svíta úr Sögu dátans eftir Stravinskí og Fiðlusónata Mozarts í e-moll.

Þótt Kristján Karl búi í Reykjavík núna kveðst hann vera norðanmaður, meira að segja frá Dalvík.

Þetta er fimmta Bergmálshátíðin sem hann stendur fyrir ásamt kærustu sinni, Hafdísi Vigfúsdóttur flautuleikara, og Grími Helgasyni klarinettuleikara. Að þessu sinni hafa þau fengið fimm tónlistarmenn í lið með sér.

Dagskráin ber keim af árstíðinni, að minnsta kosti fuglatónlistin sem er á tónleikunum 21. júní. Hvernig útskýrir Kristján Karl hana?

„Kvöldið byrjar á að Hjörleifur Hjartarson leiðir gesti um friðland fuglanna. Sú ferð byrjar klukkan átta og tekur kannski einn og hálfan tíma, svo fara gestir í Berg og fá sér kaffi og tónleikarnir hefjast klukkan tíu.

Þar verða meðal annars verk sem tengjast fuglum og fuglasöng, bæði þjóðlagaútsetningar og frumsamin verk. Það er mikill söngur á þeim tónleikum, Margrét Hrafnsdóttir sér um hann.

Margrét bjó í Stuttgart í ein 15 ár en flutti heim í fyrra eins og mörg okkar og þekkir til á Dalvík, bjó þar í tvö ár fyrir mörgum árum, þannig að hún er pínu að koma heim líka.“



Lokatónleikarnir verða á sunnudaginn, þeir kallast Aríur og fingraflugeldar og Kristján Karl segir það lýsa tónleikunum vel.

„Þar eru tæknilega erfið verk sem reyna á hæfni flytjenda. Til dæmis stórt stykki eftir króatískt tónskáld, Stjepan Sulek. Hann er ekkert að hlífa spilurunum sem eru í þessu tilfelli ég á píanó og Carlos Caro Aguilera á básúnu. En það er auðvitað bara eitt verk af mörgum,“ segir Kristján Karl og kveðst vona að fólk skelli sér á Bergmál.

Aðgangur á einstaka tónleika er 2.500 krónur, passi á alla þrenna tónleikana kostar 5.000 en ókeypis er fyrir 25 ára og yngri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×