Menning

Amma og mamma fallegar fyrirmyndir

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er að vinna að því að gera tónleikaefnið um músina aðgengilegt á öðrum tungumálum,“ segir Hallfríður.
"Ég er að vinna að því að gera tónleikaefnið um músina aðgengilegt á öðrum tungumálum,“ segir Hallfríður. Fréttablaðið/GVA
„Þrátt fyrir að Maxímús hafi oft fengið fallegt hrós þá finnst mér þetta vera æðsta viðurkenning frá íslensku þjóðinni sem ég og verkefnið mitt getum fengið og þykir afar vænt um hana.“

Þetta segir Hallfríður Ólafsdóttir tónlistarmaður sem var sæmd riddarakrossi á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks.  Maxímús Músikús er hennar hugarsmíð og nú hefur hún gefið út fjórar bækur um þá tónelsku mús.  Þær eru alþekktar á meðal íslenskra barna.

Bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Maxa-tónleikar verið haldnir víðs vegar, nú síðast í Stokkhólmi þar sem Konunglega fílharmónían flutti Maxímúsar-dagskrá fyrir þúsundir sænskra barna.

Hallfríður er þriðja konan í beinan kvenlegg til að bera orðuna, hún segir ríkt í þeim öllum að fræða og hjálpa.

„Amma mín, Þóra Jónsdóttir, vann öflugt barnastarf í gegnum bindindishreyfinguna á Siglufirði á fyrri hluta síðustu aldar. Setti upp leikrit með börnunum, samdi þau jafnvel sjálf og bjó til búningana.

Móðir mín, Stefanía María Pétursdóttir, hefur starfað að þjóðþrifamálum í gegnum kvenfélögin og var lengi formaður Kvenfélagasambands Íslands,“ lýsir Hallfríður og bætir við.

„Þær eru báðar fallegar og ósérhlífnar fyrirmyndir fyrir mig.“

En hvað er að frétta af músinni?

„Ég er að vinna að því að gera tónleikaefnið um hana aðgengilegt á öðrum tungumálum. Fyrsta sagan er tilbúin á nokkrum málum og var flutt víða á síðasta vetri.

Nú liggur fyrir beiðni um að gera tónleikahandrit að bók númer tvö á þýsku og sænsku. Þriðja bókin er tilbúin og var flutt af Berlínarfílharmóníunni.

Svo er fjórða bókin eftir. Í kringum hverja sögu er sem sagt dálítill snjóbolti.

Einnig erum við að vinna að þrautum, púslum og spilum sem eiga að gleðja börnin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×