Menning

Sek leiklesið á Norrænu sviðslistadögunum í Kaupmannahöfn

Hrafnhildur Hagalín. Leikskáldið nýtur vinsælda á Norðurlöndum og hlaut meðal annars bæði Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin og Grímuna 2013 fyrir útvarpsverkið Opið hús.
Hrafnhildur Hagalín. Leikskáldið nýtur vinsælda á Norðurlöndum og hlaut meðal annars bæði Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin og Grímuna 2013 fyrir útvarpsverkið Opið hús. Fréttablaðið/Valli
Leikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín var leiklesið í Husets Teater á Norrænum sviðslistadögum í Kaupmannahöfn þann 21. júní síðastliðinn. Leikritið var flutt á dönsku í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar og hlaut flutningurinn mikið lof gesta og gagnrýnenda. Verkið er hluti af Norrænu leikskáldalestinni en hún sviðsetur leiklestur á völdum verkum frá Norðurlöndunum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi og er lestin starfrækt annað hvert ár.



Leikskáldalestin mun í framhaldi ferðast um Norðurlöndin en Sek hefur nú þegar verið þýtt á ensku og dönsku. Einnig standa yfir samræður við leikhús á Manhattan í New York um mögulega uppsetningu þar.



Sek var frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar í október síðastliðnum og byggir á dómsmáli frá 19. öld. Lífsþræðir ábúenda og vinnumanns í Rifshæðarseli á Melrakkasléttu fléttast saman í örlagaríkum ástarþríhyrningi. Með því að styðjast við texta og tilsvör úr dómskjölum frá þessum tíma byggir höfundurinn, Hrafnhildur Hagalín, upp spennandi atburðarás sem kemur áhorfandanum sífellt á óvart.



Hrafnhildur Hagalín er eitt af fremstu leikskáldum landsins. Hún hlaut leikskáldaverðlaun Norðurlanda árið 1992 fyrir leikrit sitt Ég er meistarinn ásamt því að hljóta Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin og Grímuna 2013 fyrir útvarpsverkið Opið hús. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×