Menning

Búa til útvarpsþætti í heimahúsum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Frá upptöku fyrsta þáttarins. Ragnheiður, Marteinn og Kristian í stofu á Vesturvallagötu.
Frá upptöku fyrsta þáttarins. Ragnheiður, Marteinn og Kristian í stofu á Vesturvallagötu. mynd/úr einkasafni
Þetta er verkefni sem við erum að vinna fyrir Útvarpsleikhúsið og fengum líka styrk frá Heita pottinum sem er Breiðholtsverkefni Hins hússins, þannig að nú erum við að leita að húsnæði í Breiðholtinu til að taka upp næsta þátt,“ segir Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, einn umsjónarmanna útvarpsþáttarins Ölduróts.

„Það er nú þegar alls konar fólk búið að hafa samband og er tilbúið til að opna fyrir okkur heimili sín og láta taka upp útvarpsþátt í stofunni hjá sér, sem er mjög skemmtilegt. Hugmyndin er að safna fólki saman og búa til svona útvarpsstund eins og í gamla daga þegar fólk safnaðist í stofuna til þess að hlusta saman.“ Aðrir umsjónarmenn þáttarins eru Marteinn Sindri Jónsson og Kristian Ross og munu þættirnir verða alls fjórir.



Þættirnir eru sérstakir að því leyti að upptaka þeirra fer fram í heimahúsum víðs vegar um landið, þannig er sviðsetning þáttarins og upplifun áhorfenda samofin.



Fyrsti þáttur var frumfluttur í stofu á Vesturvallagötu í Reykjavík og Ragnheiður segir það hafa verið mjög skemmtilega stund þar sem fólk sat þétt saman og drakk te og varð vitni að útvarpsþætti verða til. Sá þáttur verður fluttur á Rás 1 á sunnudaginn kemur.



Viðfangsefni allra þáttanna er tíminn en nálgunin er misjöfn í hvert sinn. „Þemað í Breiðholtsþættinum verður minningar og það að búa til sína eigin stund,“ segir Ragnheiður. „Marteinn er heimspekingur, Kristian er hljóðskúlptúristi og ég sviðshöfundur og við reynum að búa til heima sem endurspegla þessi ólíku svið.“



Þriðji þátturinn verður tekinn upp á Seyðisfirði og síðan verða þau Ragnheiður og Marteinn með smiðju á LungA þar sem síðasti þátturinn mun verða til. „Í þriðja þættinum horfum við til gamla tímans en svo kemur bara í ljós hvernig smiðjan okkar þróast og hvað kemur út úr því,“ útskýrir Ragnheiður.



Enn er opið fyrir umsóknir um að hýsa þáttinn í Breiðholtinu og geta áhugasamir sent þær á netfangið oldurotid@gmail.com. Þar þarf að koma fram heimilisfang og örlítill texti þar sem húsráðendur útskýra af hverju þeir hafa áhuga á að fá útvarpsþátt í stofuna hjá sér. Þátturinn verður tekinn upp klukkan 20.08, þriðjudaginn 1. júlí næstkomandi og útvarpað á sunnudeginum þar á eftir. Upptakan tekur um klukkustund en þar að auki þarf að fara fram nauðsynlegur undirbúningur fyrr um daginn.



Hugmyndin er sú að viðburðurinn sé opinn öllum og því mikilvægt að húseigendur séu tilbúnir að bjóða gesti og gangandi velkomna. Aðstandendur þáttarins sjá aftur á móti um góðar veitingar, vöfflur og kaffi. „Það er þáttur í því að búa til þessa stund,“ útskýrir Ragnheiður. „Hvað minnir meira á góðar stundir gamla tímans en vöfflulykt og útvarpshlustun?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×