Menning

Nýtir kórreynsluna í listaverkum sínum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhanna Þórhallsdóttir er hæfileikarík á hinum ýmsu sviðum listarinnar og opnar sína fyrstu listaverkasýningu.
Jóhanna Þórhallsdóttir er hæfileikarík á hinum ýmsu sviðum listarinnar og opnar sína fyrstu listaverkasýningu. vísir/valli
„Mér þótti í þessu tilfelli gott að nota andlitin, og svo er maður alltaf að hugsa um fólkið í kringum sig, alla kórana sína, vinkonur og vini. Það kviknar hugmynd og maður djassar sig einhvern veginn í gegnum þetta,“ segir listakonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir en hún opnar sína fyrstu myndlistarsýningu á laugardaginn í listasalnum Anarkíu í Kópavogi. Ásamt henni opnar myndlistarkonan Hulda Vilhjálmsdóttir einnig sýningu.

Jóhanna, sem einnig er söngkona, stýrði hinum ýmsu kórum í rúm tuttugu ár og nýtir hún sér þá reynslu í myndlistinni. „Andlitið er persónulegasta eign hverrar manneskju og flestir eyða stórum hluta ævi sinnar fyrir framan spegil. Fólk veltir fyrir sér nefi, eyrum, munni og augum og horfir gagnrýnum augum á allar ójöfnur húðarinnar. Kór er samsafn af syngjandi andlitum þar sem séreinkennin hverfa inn í eina syngjandi heild og ég nýti mér það,“ segir Jóhanna, sem hefur á sínum langa ferli mikið spáð í andlit og svip einstaklinga.

„Ég hef alltaf haft gaman af að vera með góðu fólki og alltaf verið með marga í kringum mig, og þá er einhvern veginn ekki annað hægt en að spá í andlitssvipinn. Annars er ég nú hálffeimin við að tala um þessi verk. Þetta er bara fyrsta vers. Ein lítil hugmynd. Bæði andlit og svo er líka slatti af brjóstum,“ segir Jóhanna og hlær.

Sýningin dregur nafn sitt af stærsta verki Jóhönnu, sem hún kallar Þögla kórinn. „Ég reyni að finna tóninn í andlitum einstaklinganna. Það má líka örugglega greina að þetta er kvennakór enda stýrði ég þungavigtakórnum, Léttsveit Reykjavíkur með 120 konum, lengst af kórstjórnarferli mínum.“

Jóhanna hefur verið að mála í fimm ár. „Ég fór fyrst í Myndlistarskóla Kópavogs til Söru Vilbergsdóttur og svo í fornámið í Myndlistarskóla Reykjavíkur,“ segir Jóhanna spurð út í reynsluna. Hún prófaði einnig nám í textíldeild Myndlistarskóla Reykjavíkur en kunni betur við sig í málningunni.

„Ég er tengd olíunni, lyktin er svo góð og mér fannst hún bara skemmtilegri. Ég fór í Kópavoginn aftur til Söru og líka til Bjarna Sigurbjörnssonar. “

Um tvö ár eru síðan að Jóhanna hætti sem kórstjóri en þýðir það að hún sé hætt að syngja? „Ég kenni söng í Söngskóla Sigurðar Demetz og hætti nú seint að syngja. Ég er nýkomin úr stúdíói og verð með nýjan geisladisk í haust. Ég þagna ekki, þótt kórinn sé þögull,“ segir Jóhanna létt í lundu.

Sýningin verður opnuð klukkan 15.00 í listasalnum Anarkíu í Kópavogi og stendur til 3. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×