Menning

Gefur mömmu engan afslátt

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Allt frá því Arnar útskrifaðist frá LHÍ í fyrra hefur hann verið á kafi í verkefnum.
Allt frá því Arnar útskrifaðist frá LHÍ í fyrra hefur hann verið á kafi í verkefnum. Fréttablaðið/Daníel
„Mér finnst alltaf gaman að heyra góðar sögur, hvort sem það er í leikhúsi eða á meðal vina, það er að segja ef það er góður sögumaður. Mig langaði sjálfan að segja áhugaverða sögu og úr varð þetta verk,“ segir leikarinn Arnar Dan Kristjánsson, sem frumsýnir verkið Landsliðið á línu í Tjarnarbíói á laugardaginn.

Verkið fjallar um ungan dreng sem fer á sjó en verður fyrir barðinu á áhöfn sem hefur þróað með sér gróteskan húmor. Drengurinn tekur þessum húmor sem sannleika með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Arnari en hann útskrifaðist frá LHÍ í fyrra og fékk í kjölfarið samning hjá Borgarleikhúsinu.

„Ég ætti í raun að vera í mjög góðu fríi og slaka á. Síðasta ár tók á og ég vann eins og brjálæðingur. En mig langaði ekki að láta staðar numið svo ég hafði samband við Guðmund Inga [Þorvaldsson], framkvæmdastjóra Tjarnarbíós, og honum leist vel á,“ segir Arnar, sem heldur á vit nýrra ævintýra í haust.

 „Ég verð ekki áfram í Borgarleikhúsinu næsta vetur. En ég tek því fagnandi, nú opnast nýjar dyr og önnur verkefni fá vængi.“

Landsliðið á Línu verður frumsýnt í Tjarnarbíó á laugardaginn og kostar miðinn 2000 krónur. Á því verða engar undantekningar. „Ég er bara ungur, lítill strákur að reyna að lifa af listinni. Mamma fær engan afslátt,“ segir Arnar og hlær






Fleiri fréttir

Sjá meira


×