Menning

Stórlið óperusöngvara í La traviata

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Þóra Einarsdóttir og Garðar Þór Cortes fara með hlutverk elskendanna Violettu og Alfredos.
Þóra Einarsdóttir og Garðar Þór Cortes fara með hlutverk elskendanna Violettu og Alfredos.
Óperukórinn og Söngskólinn í Reykjavík efna til óperutónleika í Hörpu 6. og 7. september næstkomandi en þá verður La traviata eftir Giuseppe Verdi flutt í konsertformi.



La traviata er ein af þremur vinsælustu óperum sögunnar og er byggð á skáldsögunni um Kamelíufrúna eftir Alexandre Dumas yngri. Kamelíufrúin Marie Duplessis, sem heitir Violetta í óperunni, hafði verið ástkona Dumas. Verdi sá Kamelíufrúna leikna í París vorið 1852 og fáeinum mánuðum síðar hafði hann samið óperuna La traviata og var hún frumsýnd í Feneyjum 1853.



Flytjendur La traviata nú eru Óperukórinn í Reykjavík ásamt einsöngvurum og sinfóníuhljómsveit undir stjórn Garðars Cortes. Í aðalhlutverkum eru Þóra Einarsdóttir sem er Kamelíufrúin Violetta, Garðar Thór Cortes er ástmaður hennar, Alfredo, Bergþór Pálsson er Giorgio Germont, faðir Alfredos, og Viðar Gunnarsson er Grenville, læknir Violettu.

„La traviata er afar heillandi verk og við erum mjög stolt af að setja það upp með sannkölluðu stórliði óperusöngvara í Hörpu. Það er spennandi að setja La traviata upp í konsertformi og það er mikil tilhlökkun hjá tónlistarfólkinu. Tilefnið er ekki síst 40 ára afmælisgleðskapur Söngskólans í Reykjavík og Óperukórsins,“ segir Garðar Cortes, stjórnandi sýningarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×